Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:58:35 (4254)

1997-03-11 13:58:35# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:58]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég tek undir samúðarkveðjur til þeirra sem misst hafa ástvini í sjóslysum undanfarna daga og tek undir fagnaðaróskir til starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Hæfni þeirra kemur ekki á óvart.

Þegar dregnar eru saman staðreyndir um skipsskaða við strendur Íslands um nokkurt árabil vakna margar spurningar sem hér hefur verið fjallað um, spurningar um hvort ástæða er til að grípa inn í á öðrum stigum en hefð er fyrir og lög segja fyrir um. Og nefna má allmörg dæmi þar sem vafaatriðin koma upp.

Ég held að draga megi saman tvo þætti málsins og ég vil um leið og ég kem að þeim fagna ummælum hæstv. samgrh. þar sem hann hefur sagt að hann muni kalla til sérfræðinga og hagsmunaaðila til að taka út stöðuna og vinna að því að koma með tillögur ef menn ná saman um slíkt. En líka má minna á í því sambandi að í kjölfar hörmulegs slyss 1984 þegar Hellisey fórst við Vestmannaeyjar, þá var skipuð nefnd þingmanna sem gekk undir nafninu rannsóknarnefnd sjóslysa og var skipuð þingmönnum allra flokka. Sú nefnd skilaði tillögum sem ollu byltingu í björgunaraðgerðum og fyrirbyggjandi aðgerðum við Ísland.

Það eru tveir þættir sem ég tel ástæðu til að skoða sérstaklega í þessu sambandi, annars vegar fyrirbyggjandi aðgerðir, og hæstv. dómsmrh. hefur lýst því yfir að ástæða sé til að skoða hver sé réttarstaða skipstjórnenda eða stjórnenda yfirleitt þegar upp koma slík slys sem hér um ræðir, og hvort eigi að draga einhverja línu við strendur Íslands þar sem ganga megi inn í að taka við stjórn eða stjórn af viðkomandi aðilum. Ég hygg að 12 mílur sem hér eru nefndar séu allt of langt bil. (Forseti hringir.) Hitt eru viðbrögð á strandstað og ég held, herra forseti, að krefjast verði þess að hreinsun á ströndinni þar sem Víkartindur (Forseti hringir.) liggur hefjist strax og hefði átt að hefjast strax og strandið átti sér stað. Það er hlutur sem stjórnvöld eiga að geta gripið inn í.