Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:03:39 (4256)

1997-03-11 14:03:39# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:03]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það kom fram í svari hæstv. umhvrh. að sú nefnd sem ég nefndi í minni ræðu áðan ætti hvorki að fjalla um skipulag né undirbúning aðgerða og samræmingu og þess vegna hefur hún ekki verið kölluð saman enn.

12. mars 1992 svarar þáv. umhvrh., Eiður Guðnason, fyrirspurn frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur sem spurði til hvaða ráðstafana hefði verið gripið til að bregðast við umhverfisslysum við strendur landsins. Hún gerði það í framhaldi af þeim atburði sem gerðist á Ströndum sumarið 1991. Þá kom fram hjá þáv. umhvrh. að hann hefði skipað nefnd og hlutverk nefndarinnar væri, eins og segir í erindisbréfi nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Umhvrn. ákvað fyrir nokkru að skipa nefnd sérfróðra manna til að kanna hvernig hagað skuli rannsókn á lífríki þegar mengunaróhöpp, bráðamengun, verður í sjó hér við land.`` Verkefni nefndarinnar eru síðan talin upp og þau eru þessi:

1. Að koma saman þegar meiri háttar mengunaróhöpp verða eða hætta er á slíku, meta mengunarhættu, skipuleggja rannsóknir á lífríki og leiðbeina um viðbrögð og samræma aðgerðir einstakra stofnana;

2. að meta árangur aðgerða sem gripið er til skv. 1. tölul. að þeim loknum;

3. að gera tillögur til umhvrh. um sérstakar úrbætur og aðgerðir til að mæta umhverfisóhöppum í framtíðinni eftir því sem nefndin telur nauðsynlegt.

Jafnframt segir um hlutverk þessarar nefndar að það sé ætlunin að þessi nefnd sé til staðar, sé eins konar viðbragðsnefnd í viðbragðsstöðu til þess að gera ráðstafanir, annast samræmingu aðgerða og gera tillögur um aðgerðir ef óhapp ber að höndum.

Þetta er ótvírætt hlutverk nefndarinnar. Þessi nefnd er enn til og skipuð sömu mönnum og í henni voru árið 1991. Þess vegna vekur það furðu að nefndin skuli ekki hafa verið kölluð saman strax og strandið á sér stað.