Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:44:00 (4265)

1997-03-11 14:44:00# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:44]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Skv. 6. gr. þessa stjfrv. fær hæstv. viðskrh. opnar og óskilgreindar heimildir til þess að leita á hlutabréfamarkað eftir viðbótarhlutafé allt að 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanum um sig. Ég tel gagnlegt áður en umræða um þetta stóra mál hefst að hæstv. ráðherra svari því hvernig á því stendur að ekkert segir í frv. um það með hvaða hætti þetta skuli gert. Hvergi er vikið einu orði að þeirri aðferðafræði þrátt fyrir að í skýringum og greinargerð segi í látlausri setningu: ,,Jafnframt beri að stefna að dreifðri eignaraðild.`` Veikara gat það nú ekki verið. ,, ... beri að stefna að`` og það er í grg. En í lagatextanum sjálfum og í ræðu hæstv. ráðherra var ekki vikið að þessu einu einasta orði. En þetta er kjarni þess máls sem við erum hér að ræða um. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess að viðvörunarorðin í þessu máli eru auðvitað ekki um það að breyta bönkunum í hlutafélagsform. Þau eru spurningin um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst standa við þessa litlu yfirlýsingu um að við þá breytingu sem þegar er tekin ákvörðun um að fara út í, að leita út á markaðinn, að þá skuli það tryggt að þetta verði ekki selt á undirverði og að það verði tryggt að yfirráðin yfir þessum bönkum komist ekki í hendur tiltölulega fárra stórra fyrirtækja sem gætu eftir atvikum fengið þau á undirprís. Ég vísa til reynslunnar, herra forseti, ég vísa til reynslunnar hjá öðrum þjóðum og ég undrast að um þetta aðalatriði málsins skuli ekki sagt eitt einasta orð.