Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 15:33:07 (4271)

1997-03-11 15:33:07# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[15:33]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. eigi að vita svarið við sinni spurningu nú þegar og hefði átt að fá það svar af minni ræðu ef hann hefur fylgst gaumgæfilega með. Svarið er mjög einfalt. Ég er eindregið fylgjandi því að breyta frá ríkisrekstri í bankakerfinu yfir í hlutafélagsform og ég er enn fremur fylgjandi því að stíga skrefið lengra og einkavæða ríkisbankana að því tilskildu að þar verði settar almennar reglur í löggjöf sem tryggja að við sitjum ekki uppi með enn þá meiri fákeppni og enn þá meiri valdasamþjöppun tiltölulega fárra fjársterkra aðila. Með öðrum orðum: Ég er fylgjandi þessari breytingu að því tilskildu að gerðar verði á þessu máli tilteknar breytingar sem ég reifaði í ræðu minni.

Að því er varðar forsögu málsins er rétt að minna á að það tókst ekki í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að ná samkomulagi um slík stjórnarfrv. Sá ágreiningur var auðvitað fyrst og fremst innan Sjálfstfl. eins og hv. þm. veit manna best, þ.e. gagnvart þeim aðilum sem töldu sig vera í sérstakri hagsmunavörslu fyrir hluta af ríkisrekna bankakerfinu. Ég kannast við að það voru skiptar skoðanir í mínum flokki en ágreiningurinn strandaði annars vegar á aðferðafræðinni, ágreiningi innan beggja stjórnarflokkanna reyndar, og ekki hvað síst líka að því er varðar framhald málsins um fjárfestingar banka.