Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:19:04 (4276)

1997-03-11 16:19:04# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ummæli hæstv. viðskrh. um launamál bankastjóra liggja fyrir og það er hægt að fletta upp á þeim. Það getur náttúrlega hver lagt sinn skilning í þessa hluti en ég leyfi mér nú að fullyrða að ég hafi verið eins og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar þeirrar tilfinningar, eftir framgöngu hæstv. viðskrh., að hann væri að taka undir með þeim sem teldu launakjör ríkisbankastjóranna óhófleg, þetta fyrirkomulag allt saman óeðlilegt. Og það skildu held ég flestir á þann veg að hæstv. ráðherra væri að ganga í lið með þeim sem teldu að þarna þyrfti að taka til í kerfinu og lækka í raun og veru heildarlaun bankastjóranna. En upp á þessu getum við flett og það er ástæðulaust að teygja umræðuna um það hér og nú, sérstaklega vegna þess að forseti vill stytta hana eins og við vitum. Við höldum henni líka áfram eftir utandagskrárumræður með mikilli ánægju.

Ég notaði engin orð af því tagi sem hæstv. ráðherrann notaði um mig, að ég hefði farið með ósannsögli og rangfærslur. Það kann að vera að ég hafi misheyrt á hvaða vettvangi orðaskipti bankaráðsmanna og hæstv. ráðherra um launakjör bankastjóranna urðu þegar ég fékk mínar upplýsingar. Það kann að vera að ég hafi misheyrt og það hafi ekki verið ársfundur Landsbankans heldur tiltekinn annar fundur bankaráðsmanna eða bankamannanna með ráðherranum. Ég skal fá upplýsingar um það og koma með þær aftur til umræðunnar. En ég veit að slík orðaskipti fóru fram á einhverjum vettvangi og hef það frá mjög sannsögulum mönnum og þá gengu þessir hlutir þar efnislega til eins og ég lýsti. Hæstv. ráðherra fór sjálfur yfir það hvernig málin gengu þegar bankaráðið var að ráða bankastjóra Landsbankans. Hann var ráðinn til fimm ára og það var það sem ég sagði og það fannst mér við þessar aðstæður fullkomlega óeðlilegt þegar tillaga var um annan hlut, þ.e. ráða hann til skamms tíma í ljósi þeirra breytinga sem voru yfirvofandi.