Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:39:57 (4284)

1997-03-11 16:39:57# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:39]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi vissulega verið tímabært af hæstv. ríkisstjórn að leggja á borðið tillögur sínar í skattamálum og ekki mátt seinna vera. Samkvæmt yfirliti frá fjmrn. um afkomu ríkissjóðs sem lagt var fram í upphafi árs var staðfest að milli áranna 1995 og 1996 hafi ríkissjóður fengið í tekjuskatt frá einstaklingum 4.621 millj. kr. umfram áætlun. Þar að auki með frystingu persónuafsláttar 800 millj. kr. í viðbót þannig að ríkisstjórnin hefur með þessu spilað út hluta af því sem hún svo sannanlega hafði oftekið af launþegum fyrir. Það er til góðs að hluta af því er skilað. En nú er spurningin þessi: Eru þetta lokaorð hæstv. ríkisstjórnar? Mér þykir miður að hæstv. forsrh. svaraði hvorki þeirri spurningu hv. málshefjanda né öðrum, en það er ástæða til að spyrja vegna þess að kjarasamningum er ekki lokið. Meiri hluti launþega á eftir að ljúka kjarasamningum.

Ég spyr alveg sérstaklega út frá jaðaráhrifum skattkerfisins. Ríkisstjórnin var með nefnd í því máli. Þar var ekki bara verið að tala um tekjutengingu að því er varðar launþega heldur ekki síður t.d. jaðaráhrifin varðandi bótagreiðslur lífeyrisþega. Ég spyr: Eru þetta lokaorð ríkisstjórnarinnar eða ætlar ríkisstjórnin og hæstv. forsrh. að gera eitthvað í því máli?

Því næst spurning númer tvö, vegna þess að kjarasamningum er ekki lokið. Það eru engar tryggingar, engar verðlagsforsendur gefnar, engin rauð strik, engar kaupmáttartryggingar í þessum samningum. En ég spyr: Ef ríkisstjórnin ætlar að gera betur og efna vilyrði sín gagnvart lífeyrisþegum --- og hún stendur þá frammi fyrir því að byrðarnar á ríkissjóð eru meiri en hún hefur kannski áætlað --- er hæstv. forsrh. reiðubúinn til að segja að hann muni ekki grípa til annarra skattálagna eða niðurskurðaraðgerða til þess að mæta þeim?