Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:46:51 (4287)

1997-03-11 16:46:51# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:46]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Miðað við þá umræðu um skattbyrði og jaðarskatta sem hefur farið fram á Alþingi í gegnum árin koma viðbrögðin við útspili ríkisstjórnarinnar nú um skattalækkanir á óvart. Það sem hefur gerst er í fyrsta lagi að komið hefur verið til móts við kröfur Alþýðusambands Íslands. Það er viðurkennt. Hátekjuskattur hefur verið hækkaður. (Gripið fram í: Rangt.) Dregið er úr jaðaráhrifum gegnum barnabótakerfið og létt er á skattbyrði almennt.

Hv. 4. þm. Vestf. segir að enga yfirlýsingu sé að finna um varðveislu kaupmáttar og saknar þess. Ég verð að benda honum á að grundvallaratriðið í öllum málflutningi ríkisstjórnarinnar í gegnum tíðina er að varðveita lága verðbólgu og kaupmátt. Það er grundvallarstefnuskráratriði núv. ríkisstjórnar að gera það. Hér hefur einnig verið rætt um áhrifin á ríkissjóð. Við í fjárln. höfum kallað á fulltrúa fjmrn. til að gera grein fyrir þessum skattabreytingum svo langt sem þær ná. Hins vegar er erfitt að gera sér grein fyrir áhrifunum á ríkissjóð á þessari stundu. Þar kemur til að eftir er að semja við ríkisstarfsmenn, það er eftir að sjá endanleg áhrif á tryggingakerfið af þessum aðgerðum og ekki er auðvelt að meta tekjurnar sem koma inn vegna launahækkana og aukins kaupmáttar á þessari stundu vegna þess að ósamið er við stóra hópa í þjóðfélaginu. Eigi að síður er þetta útspil á réttum tíma að mínum dómi og vonandi verður það til að efla stöðugleika og stuðla að því að samningar náist.