Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 17:26:56 (4293)

1997-03-11 17:26:56# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[17:26]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Ástgreirsdóttir spurði hér nokkurra spurninga. Þingmaðurinn spurði hvaða mat hefði verið lagt á áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til með þessu frv. eða hvort það séu aðeins trúarbrögð að breyta. Það mat var lagt á að þetta væri bönkunum til góðs, að bankarnir mundu við þessa breytingu þjóna lántakendum sínum og almenningi betur eftir þessa breytingu, ef hún kæmist á, en með núverandi kerfi. Þingmaðurinn spurði einnig um áhrif breytinganna á vaxtakerfið í landinu. Það var trú þeirra sem voru í þeirri nefnd sem undirbjó málið og skilaði tillögum sínum í maí á sl. ári að með þessum breytingum mundu vextir í landinu lækka, þ.e. menn trúa því að með breyttu fyrirkomulagi batni reksturinn sem leiði til þess að hægt sé að reka lánakerfið með lægri vöxtum.

Það var spurt um möguleika til að taka langtímalán. Það er rétt að þegar ekki er ríkisábyrgð eru möguleikarnir minni til að taka jafnlöng lán og nefnd voru hér. Þetta mun vafalaust færast yfir í það til skemmri tíma litið að verða eins og nefnt var með Íslandsbanka 4--6 ára lán en það er ekki talið að það valdi neinum erfiðleikum vegna þess að þetta er orðið hluti af þeirri rútínu sem bankamenn lifa við í dag, að endurfjármagna sig.

Það er spurt um áhrifin af samkeppni á lánamarkaði. Þarna eru menn náttúrlega með spurninguna annars vegar færri og stærri einingar sem geta þjónað sínum lántakendum betur og hins vegar hvað þarf til marga til að halda uppi eðlilegri samkeppni. Þetta er auðvitað spurning.