Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 17:57:06 (4297)

1997-03-11 17:57:06# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[17:57]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið fagnaðarefni að þetta frv. er komið fram fyrst og fremst vegna þess sem ég held að síðasti hv. þm. hafi gleymt í ræðu sinni að íslenskt peningakerfi er helmingi dýrara að meðaltali heldur en í nágrannalöndum okkar. Þess vegna er ákaflega brýnt fyrir íslenskt efnahagslíf, fyrir íslenskan almenning, fyrir fólk og fyrirtæki að ná fram breytingum á þessu skelfilega kerfi, þessu skelfilega steinrunna kerfi sem hv. þm. virðist vera svo ákafur fylgismaður fyrir.

Hann gleymir því líka að það er hin frjálsa samkeppni sem hefur náð þeim árangri víðast hvar í heiminum að geta lækkað þennan kostnað, bæði í bankaviðskiptum sem og annars staðar og skiptir engu máli hvort það eru hlutafélög, hvort það er einkaeign eða hvort það er sparisjóðaform en sparisjóðir eru mjög þekktir um allan heim. Þeim gengur misjafnlega, sums staðar vel, annars staðar illa, þannig gengur nú reksturinn yfirleitt í þessum heimi. Og það er það sem menn hafa verið að leita eftir hér um íslenskar peningastofnanir, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, að reyna að ná árangri á þessu sviði til þess að efla atvinnulíf Íslendinga, til þess að auka hér framleiðni, til þess að stuðla að meiri hagvexti, til þess að stuðla að betri kjörum sem var einmitt verið að ræða hér í dag og hefur verið aðalumræðuefnið lengi vel á Íslandi. Þess vegna er þetta frv. fagnaðarefni þrátt fyrir að mjög skammt sé gengið, þrátt fyrir að það sé hálftragikomískt að vita til þess að einhverjir hv. stjórnarsinnar hafa komið því þannig fyrir að ekki má selja nema 35% viðbótarhlutafé, það mun hinn breiði almenningur kaupa. Komið sé í veg fyrir eins og ætlað var í upphafi að 49% verði seld, því það yrðu hákarlarnir sem keyptu þau. Það er mikill og skrýtinn hugarheimur sem að baki slíkum yfirlýsingum liggur.