Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:04:57 (4302)

1997-03-11 18:04:57# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:04]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur einkennt hv. 16. þm. Reykv. að hann býr oft til myrkur um miðjan dag með umræðu sinni. Er hann þó allvel stæður sem þingmaður. Ég minntist ekki á kolkrabbann í minni ræðu. En eigi að síður er það svo (Gripið fram í: Hákarlarnir.) að ég óttast fákeppni á Íslandi og að of fáir menn séu hér að eignast of mikið og það hafi verið gengið á eignir almennings á síðustu árum. Þær hafa færst á of fár hendur. Við sjáum það á mörgum sviðum sem ég get ekki rakið hér. (SJS: Á ekki að reyna að verja bankana?)

Hv. þm. sagði að bankarnir stefndu á heljarþröm. Nú blasa við reikningar bankanna fyrir síðasta ár. Þá kemur það í ljós að þeir eru í heldur góðum málum. Afkoman er að batna (Gripið fram í: Báðir?) og horfurnar allþokkalegar. Já, ég vil segja um Landsbankann að mér finnst að hann eigi erfitt af ýmsum ástæðum eins og ég rakti í máli mínu en ég vona að hans staða sé einnig að lagast.

Hvað varðar nýjan banka. Það kann vel að vera að stóreignamenn stofni nýjan banka. Þeir fara þá andstætt því sem þeir eru að boða hér í umræðunni. Þeir vilja sameina allt. En svo kemur hv. þm. og þá er hann jafnvel með hótanir um að hann muni stofna banka. Ég segi, verði honum að góðu.

En verður eitthvað að selja? Það kemur í ljós. Ég tel að ef menn selja núna þessi 35% eða eitthvað af þeim, þá hygg ég að Búnaðarbankinn muni standa nokkuð vel að vígi, þ.e. að almenningur um allt land muni treysta þessu fyrirtæki til þess að varðveita eyri sinn og gerast hluthafi þar með ríkinu þó að það sé 65% eigandi.

Hv. þm. spurði hvort Íslandsbanki væri einkabanki. Nei, því miður, hann er ekki alfarið einkabanki. Ég hygg að formaðurinn komi meira að segja inn þar á ríkisins hlut. En ég veit ekki hvað verður um þann formann þegar Fiskveiðasjóður er tekinn út.