Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:30:20 (4312)

1997-03-11 18:30:20# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JGS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:30]

Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var kannski ekki endilega að spyrja eftir hinum almennu lagaskyldum ríkisvaldsins. Á síðasta kjörtímabili tók ég þátt, þá í stjórnarandstöðu með öðrum, að breyta algerlega, eins og hv. þm. sagði réttilega, lagaumgerðinni um íslenska bankastarfsemi.

Það sem spurning mín beindist að er að við höfum mörg dæmi um að ríkisvald, sem verður að bera ábyrgð á því að peningakerfi viðkomandi lands virki, getur aldrei og er aldrei laust undan þessari ábyrgð. Ég held að menn verði að taka það með og skilja það í þessari umræðu.

Það gerðist í Noregi í lok síðasta áratugar að norska ríkisstjórnin þurfti að dæla milljörðum króna í bankakerfið sem þó var búið að einkavæða meira og minna einfaldlega til þess að halda þessari grundvallarstarfsemi í þjóðfélaginu gangandi. Sömuleiðis er ekki langt síðan bandaríska alríkisstjórnin lagði stjarnfræðilegar upphæðir í bandaríska sparisjóðakerfið vegna þess að menn sáu fyrir sér að það hefði þvílíkar afleiðingar ef það yrði gjaldþrota að ekki væri hægt að láta það gerast.

Ég vildi bara koma þessu sjónarmiði að í þessari umræðu og menn haldi því til haga að það er ein af frumskyldum í efnahagsmálum hverrar ríkisstjórnar að halda peningamálum gangandi og það gerir það að verkum að ríkisstjórn getur aldrei látið það gerast að stór banki fari á hausinn.