Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 18:33:50 (4314)

1997-03-11 18:33:50# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[18:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið býsna fróðlegt satt að segja að fylgjast með orðræðum hv. þingmanna og þá einkanlega stjórnarþingmanna þessa síðustu einu og hálfa klukkustund eða svo. Hv. síðasti ræðumaður, formaður þingflokks Sjálfstfl., taldi kjarna málsins vera þann að með þessum frumvörpum um formbreytingar á íslensku bankakerfi og raunar stórfelldar efnisbreytingar á þeim mætti fyrst og síðast skýra með þeim hætti að hér væri verið að eyða óvissu. Í fyrsta lagi verið að eyða pólitískri óvissu um það hver stefna ríkisstjórnar og stjórnmálaflokkanna hér á landi væri í þessum málum. Ekki síður væri verið að eyða óvissu meðal viðskiptamanna bankanna. Raunar kvað við svipaðan tón hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni um að nú væri mál að linni. Það gengi ekki miklum mun lengur að hver ríkisstjórn á fætur annarri hefði uppi áform um formbreytingu og skipulagsbreytingu á íslensku bankakerfi og nú þyrfti að láta slag standa. Þetta gengi ekki lengur. Þótt hann væri í efninu og í andanum ósammála því að fara þessa leið væri það samt sem áður þannig að mikilvægt væri að eyða þessari óvissu með einhverjum þeim hætti sem gerlegt væri.

Ég fæ ekki betur heyrt, virðulegi forseti, eftir að hafa hlýtt á þessi skoðanaskipti stjórnarþingmanna einkanlega að þessi óvissa sé aldeilis til staðar enn þá. Í fyrsta lagi koma þeir stjórnarþingmenn sem hér hafa lagt orð í belg með svo mjög ólíkum hætti að þessu máli að maður hlýtur að spyrja sjálfan sig hvort þeir séu yfirleitt að ræða sama málið. Þannig var að hv. þm. Guðni Ágústsson gerði í löngu og glöggu máli grein fyrir því hvernig rekstri, einkanlega Búnaðarbankans, hefði verið gerð skil og hann verið vel rekinn á síðari tímum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hins vegar og sagði að þar væri lík í lestinni og raunar í öllum ríkisviðskiptabönkunum og þessir hlutir sem á að selja þrátt fyrir allt væru fullkomlega óseljanlegir. Maður spyr sig hvers konar fjármálapólitík það sé yfirleitt hjá þeim ágæta þingmanni að leggjast á þá sveifina að selja hluti úr bönkum sem væru óseljanlegir. Hann gat þess líka að hann hefði af því einhverjr fregnir að peningamenn á Íslandi ætluðu ekkert að hirða um að kaupa hlut í þessum ónýtu stofnunum og ætluðu sér að stofna eigin banka.

Maður hlýtur þá að gagnálykta og spyrja sem svo hvers vegna þeir hafi ekki gripið til þess ráðs fyrir margt löngu og af hverju þeir hafi ekki farið af stað með raunverulegan einkabanka og hafist handa um að selja út peninga á lágum vöxtum og greiða út háan arð. En það hefur ekki verið. Á hinn bóginn eru megintónarnir í viðlagi hv. þm. Guðna Ágústssonar þeir að þetta séu víst verðmætir hlutir en hann vilji hins vegar tæpast selja þá. Þarna koma menn því að málinu algerlega að austan annars vegar og vestan hins vegar.

Síðan skammast hv. 3. þm. Vestf., Einar Oddur Kristjánsson, út í þá framsóknarmenn og segir þá aftarlega á merinni. Menn takast því hér á innan stjórnarflokkanna um þetta frv. og það er langt í frá allri óvissu eytt í þessum efnum. Auðvitað er skýringin á bak við þetta sú að þau viðamiklu frumvörp sem hér eru á ferðnni, ekki eitt, ekki tvö heldur raunar þrjú þegar allt er talið, skapa óvissu. Þau eru umbúnaður utan um býsna lítið. Ég gleymdi í þessari upptalningu, en stundum er það þannig að þeir síðustu verða fyrstir og þeir fyrstu síðastir, að geta um þátt hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar í þessari löngu sögu allri, a.m.k. frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda fyrir hartnær tveimur árum. Þá var hann kallaður sérstaklega til þeirra starfa ásamt þó með formanni þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Geir H. Haarde, og einum af þremur seðlabankastjórum að leggja grunn að þeim hlutum sem nú eru að fara í gang í þessum sölum. Það kemur hins vegar fram í greinargerð með frv. að með þá undirbúningsvinnu sem þeir hv. einstaklingar sem ég gat um áðan inntu af hendi hefur ákaflega lítið verið farið og engan veginn verið neitt upplýst að hve miklu leyti á henni hefur verið byggt og hvort það hefur yfirleitt verið að nokkru leyti. Því var lýst yfir opinberlega af hálfu hv. formanns nefndarinnar, hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar, í sjónvarpsþætti nýverið að hann hafi lagt fyrir ein þrjú frumvörp, þrjá valkosti, fyrir hæstv. viðskrh. af ýmsum toga, en það má skilja á orðalagi greinargerðar með frv. að ekki hafi verið notaður einn einasti. Ég tel brýnt til þess að hv. þingmenn hafi öll gögn málsins við hendina að hæstv. ráðherra upplýsi það, og raunar er eðlilegt að gera kröfu til þess, að þær greinargerðir og athuganir sem þessi undirbúningsnefnd innti af hendi verði birtar og verði lagðar fram sem opinber gögn til þess að menn geti rætt málin á grundvelli almennra upplýsinga því ég gef mér að það hálft annað ár sem þessi undirbúningsnefnd hefur verið að störfum hafi vitaskuld verið safnað gögnum og upplýsingum, m.a. upplýsingum um áhrif slíkra og viðlíkra breytinga og hér um ræðir á íslenskan fjármagnsmarkað, ýmiss konar munstur og reiknilíkön þar upp sett, ef svo og svo mikið yrði selt til þessara og hinna, hvaða áhrif það hefði á vaxtastig að afnema ríkisábyrgðina.

Nú hafa að vísu fræðimenn áður og fyrr haft uppi sjónarmið í þeim efnum og ég ætla að koma að því rétt á eftir. Hæstv. ráðherra vísar til þeirra orða á bls. 6, sem ég var að geta um og eru hér í 5--6 línum og segja mér ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað þessir ágætu nefndarmenn hafa verið að sýsla á sl. tveimur árum. Þar er engar upplýsingar að finna um það. Ég óska eftir því með formlegum hætti, virðulegi forseti, að þessi grundvallargögn sem þessir þrír hv. nefndarmenn hafa væntanlega viðað að sér verði hér birt þannig að hv. þingmenn geti glöggvað sig betur á því en ella hvernig það frv. sem hér um ræðir verður til. Og ekki síst hvaða afleiðingar það mun hafa á íslenskan fjármagnsmarkað, hvaða afleiðingar það mun hafa á viðskiptakjör fyrir einstaklinga og atvinnulíf í næstu og lengri framtíð. Það er ekki reynt að lesa í þau fræði í athugasemdum með þessu stóra frv.

Ég segi það, virðulegi forseti, því að það mál sem við ræðum hér er sannarlega það langstærsta sem rekið hefur á fjörur þingsins á yfirstandandi kjörtímabili, það langstærsta sem frá ríkisstjórninni hefur komið. Mér segir svo hugur um að hér sé um að ræða feikilega mikla breytingu á öllu umhverfi íslensks fjármagnsmarkaðar til lengri tíma litið og ég vona svo sannarlega að þetta muni leiða til, eins og ég sagði, betri þjónustu, stöðugleika og markaðsvænni stofnana. En ýmislegt er það samt sem áður sem gerir það að verkum að ég er ekki allt of trúaður á að þessar innstu vonir mínar komi til með að rætast og mun ég koma inn á það hér rétt á eftir.

Einu er þó ástæða til þess að fagna alveg sérstaklega. Nú loksins er búið að fella leiktjöldin, nú loksins eru menn komnir til dyranna eins og þeir eru klæddir. Nú loksins eru menn farnir að hætta að tala um hlutafélagavæðingu sem markmið í sjálfu sér. Auðvitað hefur hún aldrei verið það og loksins er hæstv. ráðherra farinn að tala um hlutina eins og þeir eru, að hlutafélagavæðingin er til þess gerð að einkavæða, til þess að breyta þessum ríkisstofnunum í hlutafélög. Þess vegna má segja að yfirskrift þessa frv. um stofnun hlutafélags um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands er aðeins örsmár hluti og raunar nauðsynlegur aðdragandi að því stóra markmiði sem er að finna í 6. gr. frv. og málið snýst um fyrst og síðast. Málið snýst ekki um að formbreyta þessum bönkum heldur fyrst og síðast um það að breyta þeim í hlutafélög, að selja þessa hluti sem þjóðin öll hefur átt í hendur einkaaðilum sem vilja greiða fyrir þá. Við erum a.m.k. komin þetta langt en það þurfti þó til mikla hátíð í Perlunni. Það var raunar ekki fyrr en þessi græna bók var út gefin þegar menn frá útlöndum komu hingað og messuðu í Perlunni undir forustu hæstv. forsrh. sem menn fóru að þora að segja þessa hluti eins og þeir eru.

Það eru hins vegar ekki nema þrír eða fjórir mánuðir síðan við vorum í sviplíkri umræðu þar sem var verið að hlutafélagavæða, að formbreyta engu smáfyrirtæki á íslenska vísu, miklu og góðu fyrirtæki sem við um langt árabil þekktum sem Póst- og símamálastofnun en núna sem Póst og síma hf. Þar var ítrekað og aftur dögum saman af hálfu stjórnarliða, af hálfu hæstv. samgrh., að það væri eingöngu formbreytingin. Ekki stæði til að selja neina hluti út um gluggann eða inn um gluggann eða eitt eða neitt heldur væri eingöngu um það að ræða að breyta rekstrarforminu og, eins og það er nú gjarnan orðað, til að gefa stjórnendum þessa fyrirtækis frjálsari hendur en ella, gefa þeim meira ráðrúm til að bregðast við áreiti og viðskiptalegri samkeppni.

[18:45]

En hvað gerist? Á þeim sama Perlufundi og þegar hin græna bók var gefin út og henni dreift er því bara lýst si svona yfir af hálfu hæstv. forsrh. að auðvitað eigi að selja hluti úr Pósti og síma. Það væri nú annað hvort. Til hvers hefði þá verið að hlutafélagavæða þetta stóra fyrirtæki? Með öðrum orðum var sú leið farin að skáka í því skjólinu að hlutafélagavæðingin væri sárasaklaus og ríkissjóður ætlaði sér að eiga þessa hluti og ekki kæmi til greina að selja þar út um glugga eða inn um glugga og margsinnis vísað til ákvæða sem við sjáum ganga eftir í frv., ákvæða þess efnis að samþykki Alþingis þyrfti til. En á það var minnt að ákvæði af þessari tegund hefur auðvitað verið að finna í frumvörpum um formbreytingu ríkisfyrirtækja áður. Og það hefur tekið hér dagstund, seinni part dags að ná í heimild til að selja þá hluti. Það er hægt að stinga því inn í 3. umr. fjárlaga með heimild 6. gr., með hálfri setningu. Hæstv. viðskrh. gæti fengið heimild Alþingis og þægan þingmeirihluta stjórnarliða til að samþykkja slíka sögu hér á tveimur klukkutímum við lok 3. umr. fjárlaga og þá er ég hræddur um að fátt verði til varnar hjá sumum hv. þingmönnum. Og ég bið suma hv. þingmenn sem hér eru inni og lýstu yfir mikilli trú á hæstv. viðskrh. að þar væri nú maðurinn sem stæði fast í báða fæturna og væri á treystandi. Ég bið hann og þá að gaumgæfa eftirfarandi orð mín í því samhengi því mér segir svo hugur um að ekki seinna en við fjárlagagerðina fyrir árið 1999, þ.e. á seinni part næsta árs, átta mánuðum eftir að bankarnir hafa orðið að hlutafélögum, gangi þetta fram; þar sem menn þá gaumgæfi það mjög alvarlega og komi fram með tillögur um að selja út um gluggann. Þetta segi ég af nokkurri reynslu því að hæstv. fjmrh. hefur aldrei farið í launkofa með sín sjónarmið í þessum efnum. Ég er handviss um að menn verða farnir að ræða þessa hluti á þann veg strax þá. Auðvitað verður ekki beðið boðanna og leggi nú aftur sami hv. þm. við hlustir sem hefur svo mikla tröllatrú á hæstv. viðskrh. og ríkisstjórninni þegar kemur að því að fara með þessi verðmæti þjóðarinnar. Auðvitað verður þetta allt selt í einum grænum hvínandi hvelli. Menn munu ekki bíða þrjú eða fjögur ár til þess. Og gæti menn líka að þeim ákvæðum sem er að finna í athugasemdum með þessu frv. þar sem kveðið er á um að ríkisstjórnin ,,miði`` að því að selja nú ekki meira fyrr en eftir fjögur ár, að vísu tveimur árum eftir að hún er farin frá völdum, þannig að það er auðvitað fullkomlega marklaust og hefur ekkert gildi. En hún ,,miðar`` að því.

Ég er því miður ekki þannig gerður, virðulegi forseti, að ég geti, eins og sá hv. þm. sem ég gat um áðan, haft jafnmikla tröllatrú á hæstv. viðskrh., jafngóður drengur og hann er. Ég held bara að örlögin og umhverfið taki af honum öll völd en ég er vongóður og trúi að hann meini hið besta í andartakinu þannig að af reynslu skulum við auðvitað læra eilítið. Þegar menn ræða hlutafélagavæðingu eru þeir auðvitað að tala um einkavæðingu. Þess vegna segi ég enn og aftur að ég fagna því sumpart að menn eru þó komnir fetinu framar og farnir að ræða um hlutina eins og þeir eru. En þá skulum við gera það fyrir fullt og fast og til hins ýtrasta. Því er það að við getum loksins farið að ræða á vitrænan hátt um það hvernig hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. viðskrh. ætlar sér að koma þessum hlutum á markað. Það hefur að sönnu verið drepið á það í umræðunni fyrr í dag og leitað eftir því en enn þá hafa ekki viðhlítandi svör fengist. Hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér að koma þessum hlutabréfum, sem á að selja inn og út um gluggann, á markað? Hvaða viðmið á að hafa þar í heiðri? Á hæstbjóðandi að fá þá? Á að gera þetta í mörgum smáum hlutum? Hversu smáum hlutum? Á að bjóða starfsmönnum þetta á lægra verði en öðrum? Á að reyna að opna fyrir þann möguleika að fá inn erlent kapítal sem að minni hyggju er mjög skynsamlegt og eðlilegt? Og eiga einhver ígildisviðskipti að eiga sér stað við einhverja tiltekna hópa sem mönnum þykir æskilegt að fá þar inn? Þetta eru auðvitað hlutir sem við hljótum að verða að ræða í botn og glöggva okkur á.

Ég tók með mér, eins og margir aðrir, bókina góðu sem hæstv. ráðherra gat um að væri í kössum og handröðum uppi í ráðuneyti og lítið hefur verið gert með sem er skýrsla Samkeppnisráðs um stjórnun og eignatengsl í íslensku atvinnulífi og er holl biblía okkur öllum sem við stjórnmál sýsla. Þar er að finna margar viðvaranir og undirstrikanir á því hversu fábreytilegt þetta íslenska atvinnulíf er hér og hversu í raun fá og smá við erum sem aftur leiðir til þess að það eru auðvitað örfáir peningamenn, sterkir peningamenn sem geta í krafti fjármagns, ekki mikils fjármagns, sölsað undir sig stóra þætti íslensks atvinnulífs. Og hvað svo sem mönnum finnst að öðru leyti um íslenska banka þá eru þeir vafalaust ekki margir í landinu sem eru sérstakir aðdáendur banka og það hefur sennilega aldrei verið þannig og verður kannski aldrei. En það breytir því ekki að þeir hafa um margt verið ákveðnir kjarnapunktar í íslensku peningalífi og þótt menn úr atvinnulífinu hafi mismunandi skoðanir á þeim mörgum, hafa þeir engu að síður þurft að leita þangað og margir fengið ágæta fyrirgreiðslu en aðrir síðri. Við erum því að ræða um ákveðna grunnþætti í íslensku peningakerfi, í íslensku atvinnulífi sem menn skulu ekkert fara léttilega með og afgreiða svona inn og út um gluggann með einhvers konar hálfkæringi og því einu að þetta sé allt saman urrandi af spillingu, þetta sé óseljanlegt með öllu og þarna þurfi að hreinsa til.

Sannleikurinn er auðvitað sá, virðulegi forseti, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson rakti í löngu máli, að þessi langvarandi umræða um að leysa þurfi öll vandamál í íslensku bankakerfi með því einu að hlutafélagavæða það hefur leitt til þess að menn hafa ekkert gert í því eða haft nokkurn vilja til þess að fara inn í þessa banka og gera þær nauðsynlegu breytingar á löggjöf þeirra og umhverfi þeirra sem svo mikilvægar eru. Menn voru síðast fyrir nokkrum vikum að æpa sig hása yfir því að bankastjórar ríkisviðskiptabankanna hefðu svo há laun. Ég ásamt fleiri þingmönnum kom fram með frv. sem menn hefðu getað afgreitt seinni part sama dags þar sem lagt var til að laun þeirra yrðu ákvörðuð af kjaranefnd eins og laun annarra embættismanna ríkisins. Ég var ekki mikið var við það hjá stjórnarþingmönnum eða hæstv. ráðherra að honum væri mjög umhugað um að drífa það í gang. Menn hefðu getað afgreitt það fyrir hálfum mánuði og ég kalla eindregið eftir því, virðulegi forseti, vegna þess að við erum að ræða þessi mál, kalla eftir afstöðu hæstv. ráðherra til þess, því að það er þó ekki fyrr en um næstu áramót sem þetta á að hlutafélagavæða þannig að menn geta þó ekki farið að lagfæra og hreinsa til í kjaramálum bankastjóranna, þriggja, fjögurra eða fimm, maður veit ekki hversu margir þeir verða, fyrr en að þeim tíma liðnum. Er hæstv. ráðherra þá ekki tilbúinn til þess ásamt mér og fleirum hv. þm. jafnaðarmanna að koma kjaramálum bankastjóranna í sæmilegan skikk með því að setja þá undir kjaranefnd nú þegar? Þetta gátu menn náttúrlega gert fyrir margt löngu. Menn hafa svo sem ekkert gert mikið í því heldur að koma samkeppninni á slíkan jafnréttisgrundvöll sem ævinlega hefur verið það hald sem einkavæðingar- og hlutafélagavæðingarmenn hafa gripið í, þ.e. ríkisábyrgðin, skattahliðin, arðsemiskröfurnar. Menn geta auðvitað breytt gildandi lögum án þess að gera formbreytingar á ríkjandi bönkum. Það er hægt að selja t.d. ríkisábyrgðina og láta alla banka jafnt hafa aðgang að henni og borga fyrir hana. Það er hægt að samræma skattareglur með þeim hætti, einfaldlega með lagabreytingu (Gripið fram í.) Víst er það hægt, virðulegi hæstv. ráðherra og ég bið hæstv. ráðherra að lesa athugasemdir Seðlabankans um þau efni og rannsóknir sem ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi beðið um sjálfur þar sem farið er yfir það mjög rækilega hvaða valkostir eru til staðar í þeim efnum. Það hefur raunar legið mun lengur fyrir. Það er líka hægt að gera arðsemiskröfur til ríkisbankanna eins og allra annarra banka, maður lifandi. Auðvitað höfum við raunverulega haft öll tök á hendi til að fara inn í þetta núverandi kerfi og gera á því ákveðnar lagfæringar og gera þessar stofnanir mun virkari en þær sannarlega hafa verið og betur reknar. En enginn áhugi hefur verið á því af því að menn hafa afgreitt slíkar vangaveltur með því einu: Við skulum ekkert vera að því, við skulum bara hlutafélagavæða þetta, við skulum bara einkavæða þetta og þá leysa menn öll vandamál.

Auðvitað staldra menn við, virðulegi forseti, og velta því sannarlega eilítið fyrir sér hvernig í veröldinni standi þá á því að þeir bankar sem hafa þó verið einkavæddir, Íslandsbanki, skuli ekki rísa upp úr eins og viti á haffleti með blikkandi ljós þar sem töpin eru langlægst, þar sem vextirnir eru langlægstir, þar sem gróðinn er langmestur, þar sem rekstrarkostnaðurinn er langminnstur. En það er bara ekki þannig, virðulegi forseti. Þetta er fyrirmynd einkavæðingarmanna. Hún sýnir okkur að þar sé ekki neinn stór munur á, því er nú verr og miður. Það kunna auðvitað að vera á því ákveðnar skýringar og ég ætla ekkert að draga úr því. En veruleikinn er samt sem áður þessi og við getum ekkert fram hjá honum horft.

Ég gat þess ekki heldur og menn sýndu því ekki mikinn áhuga í háværri umræðu um há laun bankastjóra ríkisviðskiptabankanna að laun bankastjóra einkabankans voru jafnhá ef ekki hærri og ekki mikill munur þar á og skipti ekki meginmáli hvort þar væri um að ræða aðalbankastjóra, aðstoðarbankastjóra, undirbankastjóra eða hvað þeir heita. Þetta er nú sá veruleiki, sem við okkur blasir, virðulegi forseti, þannig að með þessu töfraorði, einkavæðingu, hafa menn ekki gripið guð í fótinn. Það eitt og sér dugir ekki.

Ég tek það hins vegar mjög skýrt og ákveðið fram, virðulegi forseti, að rekstrarform banka eða annarra þjónustustofnana er mér ekkert heilagt mál. Það er jafnóheilagt hvort menn ræða um ríkisrekstur, hlutafélagarekstur, samvinnurekstur. Ég vil bara meta það kalt og ákveðið hvernig þau kaup gerast á eyrinni, hvernig þau mál horfa við þegar grannt eru skoðuð. Er það þannig að ríkisreksturinn eigi ekki við í þessu sambandi og annað rekstrarform henti betur, þá gott og vel, þá skal ég vera fyrstur manna til að fallast á það. En ég tek því alltaf með ákveðnum fyrirvara þegar menn fara í krossferðir, þegar menn fara að boða trú og ætla sér að afgreiða stór og flókin mál með því einu að segja: Við leysum öll vandamál með því einu að einkavæða. Við leysum öll vandamál með því einu að hlutafélagavæða. En reynslan hefur sýnt okkur að þannig er það ekki og þannig verður það aldrei Því miður er það svo með þetta mál að allt of mörgum spurningum er enn ósvarað. Og ég ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, hef lagt fram fyrirspurn á þinginu sem raunar er óafgreidd enn þá og á eftir að ákvarða hér á hinu háa Alþingi hvort fáist lögð fram með formlegum hætti, þar sem er leitað eftir einmitt ýmsum mikilvægum upplýsingum um mikilvæg álitaefni sem uppi eru og uppi hafa verið um áhrif þessara breytinga á íslenskan fjármagnsmarkað. Það er auðvitað alveg undarlegt, virðulegi forseti, eins og ég gat um í upphafi minnar ræðu, að hálfs annars árs undirbúningsvinna sérstakra sérfræðinga ríkisstjórnarinnar og raunar tíu ára umræða um þessi mál öll skuli ekki hafa leitt okkur lengra fram á veg en svo að menn hafa ekki svör við þessum spurningum, að menn skuli enn þá vera að deila um staðreyndir á borð við þær að ríkisábyrgð komi til með að skipta einhverju máli ef íslenskar bankastofnanir lenda í erfiðleikum.

[19:00]

Menn hafa rakið með réttu hér hvað gerðist á fyrri hluta þessa áratugar í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og menn hafa skrifað lærðar skýrslur um það. Þar hefur auðvitað niðurstaðan orðið sú að ríkið hefur hlaupið undir bagga og það nákvæmlega gerist hér. Og ég trúi því ekki að menn ætli sér að deila um þá staðreynd. Hvað erum við þá fyrst og síðast að tala um? Við erum hugsanlega að tala um að eitthvað létti nú á ríkisreikningi og einhverjar breytingafærslur verði gerðar í honum, en í raun og sanni er ábyrgðin jafnvirk, ríkisábyrgðin, þjóðarábyrgðin gagnvart íslensku bankakerfi, hvort sem bankarnir heita ríkisviðskiptabankar, hlutafélög eða sparisjóðir.

Og það get ég út af fyrir sig tekið hjartanlega undir með hv. þm. Guðna Ágústssyni, þegar talað er um eignarhald á bönkum og form á þeim, að sparisjóðirnir eru alger bastarður í íslensku bankakerfi. Ég hef um langt skeið spurt eftir og beðið um svar við einfaldri spurningu: Verði um það tekin ákvörðun að leggja niður sparisjóði, hver hirðir hagnaðinn og eignirnar? Lendi sparisjóður í vandamálum og tryggingarsjóðurinn dugir ekki til, hver borgar brúsann?

Það er alveg hárrétt eins og hv. þm. Guðni Ágústsson gat um að ábyrgðarsæti hafa gengið í erfðir. Ábyrgðirnar eru hlægilega lágar auðvitað og duga engan veginn neitt í áttina að þeim skuldbindingum sem þessir sömu sjóðir hafa undirgengist þannig að eignarhaldið þar á bæ er þess virði að fara sérstökum orðum um og raunar löngu kominn tími til þess að ræða það miklum mun meira.

Virðulegi forseti. Ég á satt að segja ýmislegt eftir ósagt um þessi mál en þar sem degi hallar ætla ég að fara að stytta mál mitt. Ég vil hins vegar segja að lyktum að þegar menn ræða um að eyða óvissu á íslenskum fjármagnsmarkaði og sjálfstæðismenn hér á bæ tala um nauðsyn þess að markaðsvæða og samkeppnisvæða fjármagnsmarkaðinn og fara með himintunglum eins og sumir orða það í þeirri lýsingu á slíkri paradís sem þá mun upp rísa.

Á fimmtudaginn ætlar hæstv. ráðherra að mæla fyrir stofnun nýs ríkisbanka þannig að við erum ekki beinlínis að einfalda íslenska bankakerfið, er það, þegar á allt er litið? Nei, erum við ekki að bæta við einum banka eða svo? Ég tel nú bara á puttum og ég fæ ekki annað út en að úr þessu verði Búnaðarbanki, Landsbanki og síðan þriðji bankinn sem er Fjárfestingarbankinn. Það segir mér að þá séu þrír hlutafélagabankar í eigu ríkissjóðs en hefðu að óbreyttu orðið tveir. Síðan til viðbótar ætla ég ekki að nefna sjóðinn góða sem út af fyrir sig má margt gott um segja. Hér er þannig verið að markaðsvæða og einkavæða á öðrum vængnum en síðan verið að fjölga þessum stofnunum á vettvangi íslenskra bankamála, bæta við banka sem verður að vísu hlutafélagsbanki líka þegar allt kemur til alls, þannig að auðvitað er þetta eins og hver önnur þvæla. Og af því að ég get ekki verið við þá umræðu á fimmtudaginn, þá verð ég að geta þess að lyktum að auðvitað hefði verið langeðlilegast og sjálfsagðast að þessir sjóðir, sem ég hygg að langflestir séu sammála um að eigi að sameina, rynnu inn í þessa viðskiptabanka sem til staðar eru, Landsbankann og Búnaðarbankann. Það er engum blöðum um það að fletta að auðvitað hefði það verið það eina skynsamlega. Áhættulánasjóðurinn hefði staðið sjálfstæður og klár, en það sem eftir væri af þessum fjárfestingarlánasjóðum færi ekki í stofnun enn nýs banka heldur rynni inn í þær stofnanir sem til staðar eru.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega hið besta en er ekki síður viðbúinn hinu versta. Þetta mál á langt í land og við eigum eftir að eyða hér mörgum klukkustundum, dögum og vikum í að klára og hnýta alla lausa enda sem á því eru.