Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:14:06 (4319)

1997-03-11 19:14:06# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:14]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spyr um afstöðu manna til þess að fjölga ríkisbönkum eins og til stendur víst núna, fjölga þeim um tvo. Ég get upplýst hann um það að ég styð það ekki. Úr því að hann verður ekki hér á fimmtudaginn vil ég láta það koma fram svo að hann viti það.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spyr um nefnd sem starfaði frá hausti 1995 til maí 1996 og vildi fá þau gögn sem nefndin hefði viðað að sér. Ég vildi bara nota þetta tækifæri, af því að þingmaðurinn getur ekki verið við umræðuna á fimmtudaginn, til að greina frá eftir minni reyndar hvaða gögn við studdumst við. Þar er fyrst að nefna fyrri skýrslur og greinargerðir sem unnar hafa verið af ýmsum nefndum á liðnum árum, þar með talinni nefnd sem hv. þm. Ágúst Einarsson veitti forstöðu. Síðan var skýrsla Spicer og Oppenheim um íslenska banka. Það var álit Seðlabankans í framhaldi af þeirri skýrslugerð. Það voru álitsgerðir vinnuhópa sem stofnaðir voru í báðum bönkum. Við kölluðum eftir samráði og áttum ágætt samráð við forustumenn Sambands ísl. bankamanna. Það voru flutt fyrir okkur munnlega álit þeirra sem unnið hafa að skoðun á breytingum á lífeyriskerfi bankanna, þ.e. undir forustu Yngva Arnar Kristinssonar. Við skoðuðum mjög rækilega reglur EES um réttindi starfsmanna við sölu eða yfirtöku fyrirtækja ásamt síðan löggjöf sem sett var hér á landi 1993 í framhaldi af þessari reglugerð Evrópska efnahagssvæðisins. Við skoðuðum gögn um þróun bankakerfisins á erlendum vettvangi og við skoðuðum mjög gaumgæfilega ársreikninga bankanna beggja. Þetta voru að því er mig minnir þau gögn sem við notum. En við lögðum þetta ekki fram með okkar greinargerð. Við skiluðum þremur frumvörpum en lögðum ekki fram þessi gögn sem voru í rauninni vinnuplögg.