Störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 13:44:20 (4327)

1997-03-12 13:44:20# 121. lþ. 88.1 fundur 338. mál: #A störf nefndar um stefnu í landbúnaðarmálum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör. Ég vil lýsa yfir áhyggjum mínum yfir því að ekki skuli vera meiri hraði á störfum þessarar nefndar og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þá virðist vera brýn þörf á að grípa strax til einhverra ráðstafana til þess að mæta gríðarlegum vandamálum sem eru ekki minni nú innan bændastéttarinnar heldur en áður. Ef eitthvað er þá er að draga úr möguleikum til sölu kindakjöts og erlendir markaðir sem menn horfðu mjög á við umræðuna 1995 hafa í raun brugðist að mestu leyti þannig að í dag treysta menn eingöngu á innalandsmarkaðinn.

Ég held líka að menn hafi verið að mála sig ákveðið inn í einhverja bjartsýni um að þegar kjötfjallið seldist upp væru öll vandamálin þar með úr sögunni. Og ég sé haft eftir einum starfsmanni hjá bændum að innanlandsneysla á lambakjöti hafi aukist samkvæmt tölum frá í september 1996 en samkvæmt þeim tölum sem koma síðan fram í skýrslum frá Framleiðsluráði landbúnaðarins dregst sala lambakjöts saman um nærri 20% á síðustu þrem mánuðum ársins 1996, þannig að kannski er þarna miklu meira vandamál á ferðinni heldur en almennt er rætt um hér. Því skora ég á hæstv. ráðherra að setja þessari nefnd einhver tímamörk þannig að hægt sé að fara í umræðu um þær aðgerðir sem ráðuneytið hugsar sér að beita og við sjáum að þessum miklu vandamálum sé mætt á einhvern hátt.