Sláturkostnaður

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 13:56:54 (4331)

1997-03-12 13:56:54# 121. lþ. 88.2 fundur 379. mál: #A sláturkostnaður# fsp. (til munnl.) frá landbrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[13:56]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst vera aðalatriði þessa máls er þetta: Sláturkostnaðurinn í landinu og milliliðakostnaðurinn frá bóndanum annars vegar og til markaðarins hins vegar er of mikill, þetta er of dýrt. Þetta kostar of mikið sem veldur því að annars vegar fá bændurnir of lítið í sinn hlut og hins vegar verða þær ágætu afurðir sem þeir eru að framleiða of dýrar og seljast þess vegna ekki nægilega vel. Þetta er sá vandi sem við er að glíma. Síðan geta menn auðvitað reynt að hafa áhrif á þetta.

Það sem mér finnst blasa við þegar maður fer um sveitir landsins og sér sláturhús í sláturtíðinni er þessi gríðarlegi umsýslu- og eftirlitskostnaður sem mér finnst að hljóti augljóslega að vera allt of mikill í þessum geira atvinnulífsins. Eftirlitsiðnaðurinn sem víða hefur blómgast bærilega á undanförnum árum og þarf ekkert að kvarta yfir sínum hlut virðist vera meiri þarna miðað við umfangið heldur en víða annars staðar og kostnaður þess vegna allt of mikill. Og maður verður var við að bændum sjálfum og starfsfólki sláturhúsanna blöskrar hversu margbrotið þetta eftirlitskerfi allt saman er, bæði inni í sláturhúsunum sem starfsmennirnir þurfa að framkvæma og svo alls konar stimplaverk sem gerist síðan í framhaldinu sem litlum tilgangi virðist þjóna.