Umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:04:14 (4335)

1997-03-12 14:04:14# 121. lþ. 88.3 fundur 392. mál: #A umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ástæða fyrirspurnar minnar er tilvitnun hv. alþingismanns Margrétar Frímannsdóttur í rannsókn Harðar Kristinssonar grasafræðings og forstöðumanns Náttúrusetursins á Akureyri í morgunútvarpi Rásar 2, 3. mars sl., þ.e. skýrslu um umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík. Niðurstöður þessarar 12 ára rannsóknar hafa hvergi verið birtar. Umhvn. hefur ekki haft handrit rannsóknarinnar til skoðunar en forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands hafði fáum dögum áður en vitnað var til skýrslunnar í útvarpi sagt umhvn. frá þessari skýrslu og kynnt lauslega niðurstöður hennar. Hann sagði okkur einnig frá því að þessari rannsókn væri ekki lokið. Ég hef þetta einnig staðfest frá Herði Kristinssyni grasafræðingi og þess vegna leikur mér forvitni á að vita í stórum dráttum í hverju niðurstöður skýrslunnar eru fólgnar. Spurningar mínar eru tvær:

1. Hverjar eru niðurstöður rannsóknar Harðar Kristinssonar grasafræðings í skýrslu sem vitnað var í í morgunútvarpi Rásar 2, mánudaginn 3. mars 1997, um umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík og væntanlega var unnin árið 1985?

2. Á hvern hátt hefur hreinsibúnaður álversins vegna mengunarvarna breyst frá því að rannsóknin var gerð?