Umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:05:59 (4336)

1997-03-12 14:05:59# 121. lþ. 88.3 fundur 392. mál: #A umhverfisáhrif frá álverinu í Straumsvík# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:05]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Rannsókn sú sem vitnað er til í fyrirspurninni fór fram sumarið 1985 en skýrsla um rannsóknina hefur ekki verið gefin út, en er að finna í handriti hjá höfundi. Ekki hefur verið gengið endanlega frá niðurstöðum rannsóknarinnar. Rannsóknin mun hafa verið gerð að frumkvæði höfundar en ekki unnin samkvæmt kröfum í starfsleyfi.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er fyrirhugað að birta niðurstöður rannsóknarinnar í heild í Náttúrufræðingnum síðar á þessu ári. Í stuttu máli benda niðurstöðurnar til þess að áhrif mengunarinnar á tiltekinn gróður nærri álverinu í Straumsvík á þeim tíma sem rannsóknin fór fram hafi verið greinileg. Mosi og fléttur virðast hafa látið töluvert á sjá næst álverinu, svo og lynggróður annar en krækilyng. Krækilyng virðist dafna vel meðan plantan er ung en láta á sjá þegar hún eldist. Það á kannski við um okkur flest.

Snið var tekið annars vegar í 300--400 metra fjarlægð og hins vegar í um að bil tveggja kílómetra fjarlægð. Sýnatakan er því að hluta til innan þynningarsvæðis verksmiðjunnar. Hins vegar fór fram vettvangsathugun í allt að þriggja km fjarlægð frá verksmiðjunni og varð áhrifa vart á mosa og fléttur í þeirri fjarlægð. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar fara áhrifin minnkandi eftir því sem fjær dregur verksmiðjunni.

Varðandi seinni lið fyrirspurnarinnar má segja að veruleg breyting hafi orðið á hreinsibúnaði verksmiðjunnar síðan rannsóknin var gerð. Mestu munar að þekjur á kerum eru nú rafdrifnar í stað handvirkrar stjórnunar áður. Þetta hefur í för með sér að mun meira af menguðu lofti er sogið til hreinsibúnaðar en áður var. Þetta kemur fram í minni losun mengunarefna frá verksmiðjunni sem nú eru um það bil 1 kg á hvert framleitt tonn af áli af flúoríðum í staðinn fyrir um 5 kg á hvert framleitt tonn af áli áður en rafdrifnar þekjur komu til og svarar þetta til um 80% minni losunar á flúor.

Losun ryks er nú um það bil 0,7 kg á hvert framleitt tonn af áli í stað um það bil 8 kg á framleitt tonn af áli áður en rafdrifnar þekjur voru teknar í notkun sem er um 90% minnkun á ryklosun.

Einnig er rétt að hafa í huga að fram til ársins 1982 voru mengunarvarnir við álverið í Straumsvík afar ófullkomnar miðað við það sem nú er. Til marks um það má nefna að losun flúoríða var á þeim tíma um 25 kg á hvert framleitt tonn af áli og um 30 kg af ryki á hvert framleitt tonn af áli. Ekki er útilokað að áhrifa frá losun mengunarefna frá þessum tíma hafi gætt að einhverju leyti við gróðurrannsóknirnar sem fram fóru á árinu 1985 og áður er um getið.

Þess má að lokum geta að mælingar sem gerðar hafa verið árlega á flúoríði í grasi og trjágróðri í nágrenni verksmiðjunnar á vegum flúornefndar allt frá árinu 1968 sýna að frá árinu 1992 er styrkur flúoríða í þessum gróðri í svipuðu magni og hann var áður en verksmiðjan tók til starfa.