Ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:15:29 (4341)

1997-03-12 14:15:29# 121. lþ. 88.4 fundur 395. mál: #A ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:15]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 689 hef ég borið fram svofellda fyrirspurn til hæstv. umhvrn. um ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum:

1. Hverjir eiga sæti í ráðgjafanefnd til að fylgjast með og veita ráðgjöf um framkvæmd laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur?

2. Hverjar eru starfsreglur nefndarinnar samkvæmt reglugerð, sbr. 6. gr. laganna um erfðabreyttar lífverur?

Þessi lög sem eins og fram kemur í fyrirspurninni voru sett á síðasta ári fjalla um erfðabreyttar lífverur, tilraunir, dreifingu og markaðssetningu. Samkvæmt 6. gr. laganna er sett á fót níu manna ráðgjafanefnd sem hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði eins og segir í upphafi greinarinnar. Þessi grein var verulega styrkt í meðförum umhvn., t.d. var sett inn í lögin að við skipan í nefndina skuli m.a. höfð í huga tengsl við sérfræðistofnanir í náttúrufræði og siðfræði. Ég hef lagt fram aðra fyrirspurn sem snerta þessi lög, en þar er um að ræða beiðni um skriflegt svar, þ.e. um ítarlega setningu reglugerða á grundvelli laganna og vænti þess að það komi fjótlega svar við því frá hæstv. ráðherra.

Ástæðan fyrir því að ég hef lagt fram fyrirspurn þessa og fleiri sem snerta erfðabreytingar og tilraunir bæði varðandi erfðabreyttar lífverur aðrar en manninn svo og varðandi tæknifrjóvgun, en þeim mun verða svarað síðar, er sú að ég tel eðlilegt að það verði athugað, ef fallist verður á fram komna tillögu mína um að stofna lífsiðfræðiráð, að til kunni að koma einföldun eða einhver breyting á því nefndakerfi sem sett er upp með sérlögum, hvort sem það er um erfðabreyttar lífverur, dýravernd eða tæknifrjóvgun, án þess að ég gefi mér neitt fyrir fram í því efni. En þetta er svona bakgrunnurinn, þ.e. að átta sig á því hvað hefur verið gert af hálfu viðkomandi ráðuneyta í sambandi við þessar nefndaskipanir þannig að menn geti betur áttað sig á því hvort bregða eigi á það ráð sem vikið er að í fram kominni þáltill. um lífsiðfræðiráð, að skapa kerfi sem væri heildstæðara en það sem nú liggur fyrir.