Tilraunadýranefnd

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:36:23 (4347)

1997-03-12 14:36:23# 121. lþ. 88.5 fundur 396. mál: #A tilraunadýranefnd# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Í svari hæstv. ráðherra, sem ég þakka, kemur fram að nefndin hafi verið sett á laggirnar á miðju ári 1995. Lögin eru samþykkt á árinu 1994, líklega að vori án þess að ég vilji fullyrða það, þannig að það líður meira en ár frá því lögin eru samþykkt þar til að nefndin verður til sem síðan er falið að gera tillögur um reglugerð sem enn er í meltunni í stjórnkerfinu. Það er ekki fljótvirkt, virðulegur forseti, að manni sýnist, að svona sé staðið að málum. Vissulega tek ég undir þau sjónarmið að vel skal vandað til setningar á reglugerðum um efni sem þessi, sem og almennt séð, og lasta ég það ekki út af fyrir sig. En mér finnst þetta vera óhóflegur dráttur á að hrinda ákvæðum laga í framkvæmd eins og hér er um að ræða.

Ég vil svo að endingu, virðulegur forseti, spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn til þess að í reglugerð verði sett sérstök ákvæði sem kveði á um bann við einræktun á dýrum því mér sýnist að það gæti fallið undir það sem varðar markmið laganna og rúmast undir því en hitt er áfram álitaefni að taka það mál sjálfstætt upp í löggjöf.