Tilraunadýranefnd

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:38:25 (4348)

1997-03-12 14:38:25# 121. lþ. 88.5 fundur 396. mál: #A tilraunadýranefnd# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:38]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það má taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að það hefur liðið langur tími, frá því trúlega fyrri hluta árs 1994 og fram á nú upphaf árs 1997, að ekki skuli hafa meira miðað að framfylgja þessum ákvæðum laganna. Það dregur þá kannski athyglina aftur að því sem hv. fyrirspyrjandi sagði við fyrirspurn sem var á dagskrá næst á undan um það að e.t.v. ætti framkvæmdarvaldið að leggja sig meira fram um að sýna drög að reglugerðum við frumvarpsvinnslu. Ég skal ekki draga úr því að það væri sjálfsagt æskilegt í mörgum tilfellum en e.t.v. er það þó stundum erfitt. Ég bendi einmitt á það fyrirkomulag sem hér hefur verið hugsað að hafa, að tilraunadýranefndinni sjálfri er ætlað að semja drög að reglugerðinni og vinna úr lögunum með framkvæmdarvaldinu á þennan hátt. Kannski átti það líka við um nefndarstarfið og reglugerðarsetninguna sem við vorum að ræða við næsta dagskrárlið á undan. Það er kannski í sumum tilfellum erfitt að láta reglugerðardrög fylgja frv. þegar þau eru lögð fyrir þingið þó það geti átt við í ýmsum tilvikum.

Ég vil svo minna á að það líður ekki langur tími frá því að sá sem hér stendur nú settist í ráðherrastól í umhvrn. þar til nefndin var skipuð en þá hafði hins vegar liðið kannski u.þ.b. ár frá því lögin voru sett. Það er sem sagt 6. júlí 1995 sem nefndin er skipuð og síðan hefur dregist töluvert að hún skili ráðuneytinu drögum að reglugerð. En eftir að þau komu seint á seinasta ári hefur þó verið unnið í málinu af hálfu ráðuneytisins, bæði voru drögin endurskoðuð, send til baka til nefndarinnar, nefndin sendi endurskoðuð drög til ráðuneytisins sem nú eru í athugun hjá dýraverndarráði og ég vonast til þess (Forseti hringir.) að það þurfi ekki að líða langur tími.

Allra seinast um spurningu hv. þm. varðandi einræktun. Án þess að ég hafi þó sérstaklega skoðað það eða borið undir aðra aðila, þá er það mín tilfinning og skoðun að við eigum að gæta okkar mjög í þessu efni. Sjálfsagt höfum við nú ekki mikla möguleika eins og hv. þm. talaði um, þó ekki væri nema vegna fjárskorts, en þá held ég að það væri ekki úr vegi að setja bann við slíkum hlutum í þessa reglugerð ef það ættu ekki að vera sérstök lagaákvæði um það.