Friðun gamalla húsa

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:41:40 (4349)

1997-03-12 14:41:40# 121. lþ. 88.6 fundur 319. mál: #A friðun gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum svaraði hæstv. umhvrh. fyrirspurn frá mér um sama efni, þ.e. um þann úrskurð sem hæstv. umhvrh. felldi 1. október 1996 þar sem fellt var niður bann byggingarnefndar Reykjavíkur á því að tilteknir steinbæir yrðu rifnir eins og eigendur þeirra fóru fram á.

Í meginatriðum var niðurstaða umhvrn. sú að ekki væri hægt að hafna niðurrifinu vegna þess að hér væri um að ræða svo ríka einkaeignarréttarlega hagsmuni að ekki væri unnt að leggja þær kvaðir á eigendurna sem fylgdu því að hafna niðurrifsbeiðninni. Um þetta ræddum við hér og allmargir þingmenn tóku þá til máls og tóku undir þau sjónarmið mín, og reyndar hæstv. umhvrh., að í rauninni væru þessi mál í nokkurri óvissu og nokkrum vanda stödd.

Hér í Reykjavík er um að ræða tvo steinbæi sem þessir úrskurðir snerust um. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að rífa annan þeirra. Það er bærinn Brenna við Bergsstaðastræti. En hins vegar hefur Reykjavíkurborg tekið ákvörðun um að kaupa hinn bæinn sem mig minnir að hafi verið á Vesturgötu 54. Steinbæir eru mjög merkileg fyrirbrigði í íslenskri byggingarsögu og eiga sér enga sína líka í öðrum löndum. Þeir voru byggðir og urðu til í framhaldi af byggingu Alþingishússins og að sjálfsögðu datt engum öðrum þjóðum en Íslendingum í hug að byggja svo lágreist hús úr steini og þess eru engin dæmi í öðrum löndum.

Í framhaldi af þessu er greinilegt að húsfriðun er í nokkrum vanda stödd og þess vegna ber ég svipaða fyrirspurn til hæstv. menntmrh. sem er svona:

,,Hverjar eru horfur um friðun gamalla húsa að mati ráðherra eftir úrskurð umhverfisráðherra frá 1. október 1996?``

Eins og kunnugt er þá er það menntmrh. sem er í raun og veru æðsti yfirmaður húsfriðunar og húsverndar í landinu og undir hann heyrir húsafriðunarnefnd. Ákvarðanir um húsfriðun verða ekki teknar nema að tillögu nefndarinnar og af menntmrh.

Nú stendur þannig á í Reykjavík að það er satt að segja gífurleg ásókn í að rífa hús, m.a. hér á þessum gömlu svæðum, miðbæjarsvæðinu og upp allan Laugaveg. Nýlega hafa verið lagðar fram óskir um að rífa fjögur gömul hús við Laugaveg og það hefur þegar verið samþykkt af borgaryfirvöldum að heimila niðurrif á þremur. Eitt þeirra vilja borgaryfirvöld gjarnan vernda. Það er næstelsta timburhús Laugavegarins sem var byggt árið 1885 og er við Laugaveg 21 í Reykjavík. Það hús hefur fyrst og fremst gildi vegna þess að það er þáttur í Laugavegssögunni. Og þeir sem vilja lesa húsasögu Reykjavíkur og sögu Reykjavíkur þurfa að temja sér það að lesa Laugaveginn og það væri mikið tjón ef þetta hús færi og fleiri. Af þessum ástæðum ber ég þessa fyrirspurn fram við hæstv. menntmrh., endurtek hana ekki en vænti þess að fá góð svör.