Samræmd próf

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:01:22 (4355)

1997-03-12 15:01:22# 121. lþ. 88.7 fundur 380. mál: #A samræmd próf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[15:01]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þegar fregnir spurðust um að það stæði til að birta einkunnir eftir skólum til þess að unnt væri að bera saman getu þeirra, þá var það gagnrýnt af mörgum vegna þess að skólarnir byggju við mismunandi aðstæður. Það er t.d. ekki sanngjarnt að bera saman segjum tvo skóla í Reykjavík og segja: Þessi er betri en þessi verri út af tilteknum einkunnaniðurstöðum vegna þess að aðstæður í umhverfi skólanna eru mismunandi. Sums staðar hafa skólastjórnendur leikið það að láta ekki þá nemendur taka próf sem líklegir væru til þess að draga verulega niður meðaltal viðkomandi skóla.

Mér sýnist að þessi umræða um normalkúrfuna, sem er fjarska hlýlegt að heyra Sjálfstfl. tala um hér vegna þess að Morgunblaðið skrifaði eins og kunnugt er fyrr á öldinni marga leiðara á móti normalkúrfunni, bendi til þess að menn hafi farið offari í þessu og ekki vandað sig nægilega við birtingu á þessum upplýsingum. Ég endurtek það að ég vara við því að menn alhæfi, eins og gert var núna eftir birtinguna, út frá þeim tölum sem hér koma fyrir vegna þess reyndar, eins og Páll Dagbjartsson hefur bent á í blaðagrein, að þær segja í sjálfu sér ekki neitt eins og þær voru birtar sl. haust.