Svör við fyrirspurn

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 15:46:16 (4367)

1997-03-12 15:46:16# 121. lþ. 89.91 fundur 241#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[15:46]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurninni var stjórn Pósts og síma hf. kosin á stofnfundi hans 27. des. sl. Stjórnin réð starfsmenn og ákvað kjör þeirra. Samgrn. hefur engin afskipti af gerð ráðningarsamninga við starfsmenn Pósts og síma. Ráðningar og starfskjör starfsmanna Pósts og síma hf. teljast trúnaðarmál milli stjórnar félagsins og starfsmanna. (Gripið fram í.)

Í þeirri fyrirspurn sem hér kemur fram er ekki bara spurt um forstjóra, heldur er verið að spyrja um stöðvarstjóra, deildarstjóra og aðra stjórnendur þannig að það á að fara vítt yfir sviðið og á að gefa býsna miklar persónulegar upplýsingar sem ég tel að sjálfsögðu ekki fært að verða við.

Hitt hefur vakið mikla athygli, a.m.k. mína, í þessum umræðum að í einkavæðingarmálum og hlutafjárvæðingum ríkisstofnana skuli hnífurinn ekki fara á milli hv. þm. Ágústs Einarssonar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og bregður þá satt að segja nýrra við, en á þeim tíma sem þessir þingmenn voru báðir í Alþfl., og þá undir hatti hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, minnir mig að sjónarmið hv. þm. Ágústs Einarssonar hafi verið nær þeim sem ég er að túlka hér nú.

Í sambandi við það sem hv. 14. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, sagði áðan um það hvort Alþingi geti ekki lengur sinnt eftirlitshlutverki sínu, þá hefur Alþingi sjálft ákveðið með lögum að Ríkisendurskoðun skuli endurskoða fyrirtæki sem ríkið á að öllu eða a.m.k. hluti í, annaðhvort hafa sjálfa endurskoðun með höndum eða fela öðrum í sínu umboði að hafa endurskoðun með höndum á starfsemi slíkra fyrirtækja þannig að eftirlitshlutverki Alþingis með Pósti og síma hf. er þannig sinnt lögum samkvæmt af stofnun, endurskoðunarstofnun og eftirlitsstofnun sem er stjórnað af Alþingi sjálfu og lýtur stjórn Alþingis, forsætisnefndar Alþingis svo ég hygg að ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af þessu.