Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:12:56 (4376)

1997-03-12 16:12:56# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:12]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er mikil tilhneiging til þess að reyna að misskilja þetta viðkvæma mál. Við höfum eftir bestu getu reynt að gera grein fyrir því að það er höfuðforsenda þessarar vinnu að fá sjúkrahúsin endurmetin miðað við það þjónustustig sem þau veita, að fá þau endurmetin með tilliti til þess. Það er grunnurinn. Þetta er allt einn vefur, bæði sjúkrahús úti á landi og í Reykjavík. Og það að fá sjúkrahúsin endurmetin eftir þjónustustiginu er það sem við erum að fara fram á vegna þess að það er landsbyggðarmál. Það er keppikefli landsbyggðarinnar að reyna að hækka þjónustustigið eins og mögulegt er. Það er sparnaðarígildi vegna þess að vandræði sjúkrahúsanna í Reykjavík hafa ekki hvað síst verið vegna þess að þau þurfa að þjóna landsbyggðinni. Þetta er einn vefur. Að þessu erum við að vinna. Þetta er það sem lagt var upp með og ég trúi því, herra forseti, að ef okkur tekst vel til, ef við vöndum okkur í þessari vinnu þá munum við geta lagt grunninn að mjög farsælli þróun í heilbrigðismálum fyrir landsbyggðina í heild. Það er þetta sem við erum að keppa að og þetta hefði ég, herra forseti, ætlast til af formanni heilbrn. að hann gerði sér grein fyrir því þá hefði hann getað sleppt þessum narrahætti sem hann hefur verið með hér í dag.