Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:16:59 (4378)

1997-03-12 16:16:59# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það þarf engan að undra að beðið sé um að fá þessi mál rædd hér á Alþingi. Aðferðir stjórnvalda við niðurskurðinn á landsbyggðarsjúkrahúsunum lýsa sér best í orðunum að skjóta fyrst og spyrja svo, eða frekar að skera fyrst og spyrja svo. Það er aðferðin sem notuð var í þessu tilefni og það var staðfest á fundi hjá heilbr.- og trn., þegar þessi mál voru þar til umræðu, af fulltrúa úr heilbr.- og trmrn. Ákvarðanirnar við fjárlagagerðina við fundarborð hér úti við Austurvöll eða upp við Hlemm eru fyrst 160 millj. kr., síðan 60 millj. kr. og núna virðist ekki einu sinni vera víst að séu 60 millj. kr. Ég minni á að það eru nefndir að vinna að því hvernig best er að reka hagkvæma og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Hvers vegna er ekki beðið eftir að það komi niðurstaða úr þeirri vinnu áður en menn fara út í svona vitleysu? Menn verða að gera sér grein fyrir hvaða þjónustu menn vilja veita og hvað hún kostar og síðan að vinna í málunum. Þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð bera ekki vott um fagmennsku.