Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:20:42 (4381)

1997-03-12 16:20:42# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að lýsa megnustu óánægju minni með alla málsmeðferðina hvað varðar fjárveitingar eða niðurskurð fjárveitinga til sjúkrastofnana á landsbyggðinni. Það er ekki aðeins hæstv. heilbrrh. sem hér á sök, heldur ríkisstjórnin öll og stjórnarliðar sem samþykktu þessa aðferðafræði við afgreiðslu fjárlaga. Sjúkrastofnunum úti á landi er stillt upp við vegg. Þetta eru ófagleg vinnubrögð. Fyrst er ákveðinn niðurskurður síðan er farið að leita leiða til að framkvæma hann. Í þriðja lagi er síðan sagt við stofnanirnar: En þið megið ekki skerða þjónustuna. Þetta er ekki hægt. Þetta er öfug röð á hlutunum. Fyrst á að gera úttekt á stofnununum og síðan að ákvarða hver sparnaðurinn getur orðið í ljósi þess markmiðs að ekki eigi að skerða þjónustu. Og þó nú sé verið að reyna að lagfæra þetta með því að vinna í málinu og hafa samráð við heimamenn þá var þarna byrjað á öfugum enda og meira að segja þingmenn Norðurl. v. með sjálfan hæstv. félmrh. í broddi fylkingar hafa áttað sig á þessu og viðurkennt það.