Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:23:18 (4383)

1997-03-12 16:23:18# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:23]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Hér er ekki um neitt vantraust á hæstv. heilbrrh. að ræða. Það er alveg rétt sem hæstv. félmrh. hefur sagt. Hins vegar hefur fáum dulist undanfarið að uppi er alvarlegur ágreiningur, a.m.k. alvarlegur misskilningur á milli stjórnenda landsbyggðarsjúkrahúsanna og nefndar hæstv. heilbrrh. sem var falið það hlutverk að gera tillögur um hagræðingu í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Það þarf að komast fyrir þennan ágreining áður en lengra er haldið. Þetta mál á að vinnast í samráði við þá og því er ekki hægt að fara með það í bullandi ófriði áfram.

Ágreiningurinn felst í því að stjórnendur sjúkrahúsanna telja sig á undanförnum árum hafa náð hagræðingu og sparnaði niður í það að ekki verði lengra komist án þess að skerða þjónustuna. Þeir segja reksturinn í járnum. En hvað sem öðru líður voru tillögur nefndarinnar um sparnað settar fram í prósentum snemma í ferlinu. Það var vissulega óheppileg málsmeðferð og kolvitlaus nálgun. Hægt hefði verið að spara mikinn tíma, fyrirhöfn og geðshræringu vítt um landsins byggðir ef sparnaðarnefndin hefði tekið sig upp fyrr til að tala við heimamenn eins og áskilið var við umræðuna um fjárlögin hér á hinu háa Alþingi fyrir áramót.