1997-03-13 10:46:46# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[10:46]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að það sé jákvætt að þessi mál eru rædd á Alþingi áður en þau eru kynnt í fjölmiðlum. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að þannig skuli að málum staðið þó að ég verði að viðurkenna að það er erfitt að ræða málið hér hafandi ekki séð nokkurn pappír, ekki eina einustu línu um málið frá hæstv. iðnrh. Það hefði verið gott ef unnt hefði verið að sjá a.m.k. tölurnar á blaði áður en umræðurnar hófust. Þess vegna treysti ég mér ekki til þess að taka afstöðu til málsins í heild á þessu stigi fyrr en að allir hlutir liggja þar fyrir. Þegar afstaða okkar verður tekin í þessu máli þá hljótum við að horfa á raforkusamninginn, við hljótum að horfa á mengunarmálin og umhverfismálin, en starfsleyfi liggur ekki fyrir eins og hæstv. iðnrh. benti á áðan. Við hljótum að líta á skattastöðu fyrirtækisins, á eignarhaldið sem slíkt, á áhrif á byggðaþróun og einnig á sambýli járnblendiverksmiðjunnar við aðra stóriðju í landinu og sérstaklega sambýli hennar við hugsanlegt álver í Hvalfirði. Allt þetta verður að skoða í heild áður en menn hrapa að þeim niðurstöðum að taka afstöðu til þessara hluta.

Ég verð hins vegar að segja það, herra forseti, að mér finnst að um Elkem megi segja: Ill var þín fyrsta ganga. Veruleiki sem blasir við eftir reynsluna af Elkem og viðræðurnar við Elkem að undanförnu er ekki góður. Það blasir við að í upphafi krafðist Elkem stækkunar og reyndi um leið að sauma að fyrirtækinu og Íslendingum í þessu máli eins og kostur var. Síðan var krafist meiri hluta í fyrirtækinu og það var gefið undir fótinn með meiri hluta. Í þriðja lagi var þess þá krafist að hlutur Íslands yrði endurmetinn og það var gert. Niðurstaðan af dæminu sýnist mér vera sú að framlag Íslands til verksmiðjunnar sem í heild nemur um 4 milljörðum kr. er metið á 1.300 millj. kr. Þannig að samkvæmt þeim tölum sem iðnrh. las upp áðan þá sýnist mér að Ísland gefi eftir í dæminu 2,7 milljarða til að ná þessum samningum sem nú liggja fyrir. Í fjórða lagi hefur það líka gerst og verið knúið fram af Elkem með ótrúlegri óbilgirni að mínu mati, að Íslendingar gæfu undir fótinn með það að verksmiðjan yrði stækkuð enn frekar og bætt við fjórða og fimmta ofninum og gerðir raforkusamningar þess vegna. Niðurstöður í þeim efnum liggja að sjálfsögðu ekki en fyrirheitin hafa verið gefin. Og loks hefur hæstv. iðnrh. lýst því yfir úr þessum ræðustól í þessari virðulegu stofnun að í rauninni sé vald eða meiri hluti Íslendinga í þessu fyrirtæki einskis virði.

Allt þetta bendir til þess að Elkem ætli að sækja bragðið gagnvart Íslendingum í þessu máli af ótrúlegri hörku. Það bætist svo við, herra forseti, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson benti á áðan, að Elkem á í illdeilum við starfslið sitt víða í Noregi í þeim verksmiðjum sem fyrirtækið rekur og svo bætist við að starfsliðið hér hefur miklar áhyggjur af málinu eins og kemur fram í lesendabréfi í Morgunblaðinu í dag sem Jón Hálfdanarson eðlisfræðingur skrifar. Og hygg ég að fáir starfsmenn fyrirtækisins, með fullri virðingu fyrir þeim öllum, þekki eins vel til málsins og Jón Hálfdanarson. Ég hvet hv. þm. til að lesa þetta bréf vegna þess að þar er varað við því að gengið sé fram í málum eins og hér hefur verið gert.

Að öllu þessu samanlögðu, herra forseti, finnst mér óhætt að segja um þessi fyrstu spor: Ill var þín fyrsta ganga. En við skulum meta málið að lokum í heild þegar við sjáum það í heild sem við höfum ekki séð enn.