1997-03-13 10:51:07# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[10:51]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum stóðu viðræður um stækkun járnblendiverksmiðunnar þannig að viðræðum var í raun slitið. Ágreiningur virtist óleysanlegur og ásakanir um stífni og ósanngirni gengu á víxl. Í umræðum um málið á hv. Alþingi hinn 3. mars sl. lagði hæstv. iðnrh. áherslu á slæma samningsstöðu Íslendinga þar sem --- og ég vitna efnislega til orða hæstv. ráðherra, með leyfi forseta --- yfirráð okkar í fyrirtækinu sem ráðandi afl með 55% eignarhlut væri einskis virði vegna þess að minnihlutaréttindin væru svo tryggð. Margir töldu þessa yfirlýsingu hæstv. ráðherra vægast sagt gáleysislega og skaðlega fyrir samningsstöðu okkar í málinu.

Og nú er það auðvitað stóra spurningin, með tillti til síðustu atburða, hvort aðrir eignaraðilar hafi metið hlutina allt öðruvísi en hæstv. ráðherra eða hvort nú hafi verið gengið svo frá í samningunum að dregið hafi úr réttindum minnihlutaeigenda í fyrirtækinu. Þessu verður hæstv. ráðherra að svara.

Fjölmörgum öðrum spurningum er vitanlega ósvarað á þessari stundu. Ég vil nefna tvær: Bormenn Íslands geta vissulega glaðst þar sem virkjanaáform fá nú byr undir báða vængi. En hverju mun þessi samningur skila til framtíðar? Hvert er það verð sem fæst fyrir orkuna og hver verður hagnaðurinn þegar upp er staðið? Íslenska ríkið hefur lagt mikið af fé skattgreiðenda í þetta fyrirtæki sem hefur notið allrar hugsanlegrar fyrirgreiðslu og alls þess hagræðis og stuðnings sem hugsast getur og þá fyrst og fremst í lágu orkuverði. Getur hæstv. iðnrh. fullyrt það með góðri samvisku að orkusala Landsvirkjunar til járnblendiverksmiðjunnar og þær framkvæmdir sem hún þarf að ráðast í vegna stækkunar verksmiðjunnar muni skila arði? Getur hæstv. ráðherra svarað því?

Í öðru lagi hljótum við að spyrja um forsendur og skilyrði á sviði umhverfismála fyrir þessari stækkun. Mengunarvarnir hafa verið í ólestri hjá þessu fyrirtæki og það er fullkomlega óviðunandi ef það á að samþykkja stækkun hennar og aukna framleiðslu án verulegra fyrirvara og strangra skilyrða um ýtrustu mengunarvarnir. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir hér áðan að það yrði gert en sporin hræða og brýnt að menn haldi vöku sinni. Ég er full tortryggni.

Herra forseti. Á þessum stutta tíma sem gefst til umræðna hér er ekki svigrúm fyrir ítarlega umræðu um þetta mál eða atvinnustefnu ríkisstjórnarinar yfirleitt. En hér er á ferðinni enn eitt dæmið, enn ein staðfestingin, að mínu mati, um rangar áherslur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum sem í raun vinna gegn þeim miklu möguleikum sem við höfum á öðrum sviðum atvinnumála, atvinnukostum sem byggja annars vegar á hreinleika og lítt menguðu umhverfi og hins vegar á virkjun hugvits og þekkingar. Það er nöturlegt að á sama tíma og hæstv. iðnrh. í nafni ríkisstjórnarinnar vinnur af alefli að aukningu og eflingu mengandi stóriðju í landinu þá er upplýst að atvinnukostir sem byggja á hugviti, þekkingu og rannsóknum eru afskiptir og vanræktir og njóta smánarlegs stuðnings af hálfu stjórnvalda. Það sýnir þá gríðarlegu möguleika sem þar eru fyrir hendi að þrátt fyrir stuðnings- og skilningsleysi stjórnvalda eru íslenskir vísindamenn þessa dagana að auka hróður lands og þjóðar og gera verðmæta samninga um verkefni á sviði líftækni. Það er athyglisvert.