1997-03-13 10:54:46# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[10:54]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. hefur gert grein fyrir þeim mikilvæga samningi sem náðst hefur um stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Á þessum morgni átti hæstv. iðnrh. ásamt stjórn fyrirtækisins og fulltrúum Elkem og Sumitomo fund með starfsmönnum þar sem farið var yfir samningana og þær breytingar sem eru í vændum ef allt gengur eftir eins og samkomulag hefur orðið um.

Þegar samkomulagið sem gert hefur verið er metið er nauðsynlegt að fara yfir sögu rekstrar þessa fyrirtækis og rifja upp hvernig hlutirnir hafa gengið, reyna að meta markaðsaðstæður og þær ytri aðstæður sem þessi iðnaður býr við. Árið 1992 var halli á rekstri járnblendifélagsins 600 millj. ísl. kr. Þá var fyrirtækið í seinni hluta mikillar lægðar í þessari starfsemi sem m.a. var vegna markaðshruns á járnblendi sem stafaði af því að mikið hráefni kom inn á markaðinn frá Sovétríkjunum gömlu og Kína og varð til þess að verksmiðjur á Vesturlöndum urðu í miklum vandræðum. Síðan hefur færst mjög til betri vegar í þessum rekstri hjá Íslenska járnblendifélaginu, m.a. vegna þess að endurskipulagt var á Grundartanga, miklar skipulagsbreytingar voru gerðar í verksmiðjunni og starfsliði fækkað mjög mikið. Það voru mjög erfið spor sem gengin voru á þeim árum þegar þurfti að fækka um 40 manns á skömmum tíma. En þær breytingar sem þá voru gerðar hafa leitt til þess að í dag er þessi verksmiðja talin með allra hagkvæmustu verksmiðjum sem völ er á. Það er þess vegna sem niðurstaða hefur orðið um það og samkomulag að stækka verksmiðjuna. En þrátt fyrir að þarna sé mikil hagkvæmni í rekstri þá var það mat stjórnarinnar, sem hefur átt í viðræðum á undanförnum missirum við meðeigendur verksmiðjunnar, að nauðsynlegt væri að stækka hana til þess að verksmiðjan stæðist samkeppni í þessari framleiðslu.

Það var í ljósi þessa sem gengið var svo hart fram í viðræðum við Elkem. Og á fundinum upp á Grundartanga í morgun kom fram það mat fulltrúa Elkem að samningurinn fæli það í sér að Grundartangaverksmiðjan væri sennilega dýrasta verksmiðja í veröldinni. En það sem veldur því að samningar náðust og fulltrúar Elkem og Sumitomo voru til viðræðu um þessa niðurstöðu var að það er einnig þeirra mat að þetta sé mjög vel rekin verksmiðja, þarna sé góður starfsandi og miklir möguleikar séu á því að reka þessa verksmiðju með góðum árangri. En auðvitað er það alltaf þannig að þegar gerðir eru samningar að það þarf að ná málamiðlun, ná niðurstöðu sem allir geta sætt sig við. Það er mitt mat að stækkun um þriðja ofn og heimild til þess að undirbúa stækkun um fjórða ofn og yfirlýsing frá Landsvirkjun um samninga um fimmta ofninn skapi þvílíka möguleika fyrir okkur Íslendinga um iðnaðaruppbyggingu að það sé fyllilega forsvaranlegt og í fyllsta máta hagkvæmt fyrir íslenska ríkið að gera þessa samninga og gera ráð fyrir því að selja sinn hlut í verksmiðjunni. Það er m.a. mikilvæg (Forseti hringir.) trygging fyrir því, tel ég vera, að starfsmenn á Grundartanga hafi starfsöryggi í framtíðinni.