1997-03-13 11:01:20# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:01]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi vísa til utandagskrárumræðu sem var haldin hér fyrir skömmu að frumkvæði Gísla S. Einarssonar, þingmanns jafnaðarmanna, út af þessu máli þar sem hann harmaði þá niðurstöðu sem varð fyrir nokkru þegar slitnaði upp úr samningum. Þar hvatti hann til að málið yrði tekið upp aftur og freistað þess að taka það úr þeim farvegi sem það var í og það hefur orðið. Ég fagna því að svo hafi gerst því eins og skýrt hefur komið fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni þá eru kostirnir mun meiri og vega þyngra en gallarnir. Hér ber vitaskuld hæst fjölgun starfa. Það hefur verið mjög misjafn gangur á þessu fyrirtæki. Við höfum lagt í það 4 milljarða. Það hefur búið við mjög lágt raforkuverð og reksturinn hefur ekki alltaf gengið vel. Það er full ástæða til að halda að það standi til bóta og í mínum huga er meirihlutaeignaraðild ekkert aðalatriði enda hefur sú meirihlutaaðild ekki nýst okkur í reynd. Aðalatriði í okkar huga hlýtur að vera að selja orku á góðu verði, samkeppnishæfu og háu verði, og að skapa skilyrði fyrir góð, vel launuð störf.

Herra forseti. Ég vil benda þingheimi á það, þegar menn tala um verðgildi, að enginn hlutur er meira virði en þriðji aðili er reiðubúinn til að greiða fyrir. Það er hins vegar svo að ekki er hér allt gott. Ég verð að treysta því að þessi verksmiðja muni sýna umhverfismálum og þeim þáttum mun meiri athygli og festu heldur en verið hefur. Það hefur verið aðalgagnrýnisefnið með réttu gagnvart þessu fyrirtæki. Það verður vitaskuld að gaumgæfa mjög vel við veitingu frekara starfsleyfis að öll ströngustu skilyrði varðandi umhverfismál verði uppfyllt.