1997-03-13 11:05:56# 121. lþ. 90.95 fundur 243#B samkomulag um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. og um breytingu á eignaraðild# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:05]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. iðnrh. fyrir að taka þetta mál upp á þessum tímapunkti. Fyrir um tveim vikum síðan voru málefni Íslenska járnblendifélagsins til umræðu á Alþingi og sú staða sem þá var komin upp þegar slitnað hafði upp úr viðræðum eigenda fyrirtækisins um stækkun verksmiðjunnar. Að mínu mati var þá komin upp sú versta staða sem við gátum staðið frammi fyrir, staða fyrirtækisins til framtíðar var mjög ótrygg og ekkert útlit fyrir aukna starfsemi þess. Síðast en ekki síst er það mitt mat að atvinnuöryggi starfsmanna til lengri tíma litið hafi verið í hættu. Umræðan á Alþingi á þeim tíma bar keim af álíka sjónarmiðum og fram komu áhyggjur hv. alþm. vegna stöðu málsins þá.

Skiptar skoðanir hafa verið um eignaraðild eigenda fyrirtækisins en sá þáttur tengist einmitt umræðunni um stækkun verksmiðjunnar. Ég tel að það eigi ekki að vera markmið í sjálfu sér að íslenska ríkið eigi meiri hluta í þessu fyrirtæki. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja starfsemina í sessi, bæta afkomu fyrirtækisins og tryggja atvinnuöryggi starfsmanna til lengdar. Nú blasir við gerbreytt staða í þessu máli frá því sem var fyrir um það bil tveimur vikum síðan. Ég fagna þeim samningum sem hafa náðst um stækkun verksmiðjunnar og tel niðurstöðuna vel viðunandi.

Eins og fram hefur komið mun eignarhald eigenda breytast samkvæmt samningunum. Íslenska ríkið gefur eftir meiri hluta sinn í hlutafélaginu og í framhaldi verður fyrirtækið gert að almenningshlutafélagi. Hins vegar er það svo að ýmsum er það nokkurt áhyggjuefni hvaða aðili það er sem mun eignast meiri hluta í þessu fyrirtæki. Þessi breytta staða málsins mun þýða að fram undan eru stóraukin umsvif í þjóðfélaginu, starfsemi fyrirtækisins verður tryggð til lengdar litið og þessu fylgja miklir efnahagslegir ávinningar fyrir þjóðarbúið. Síðast en ekki síst fjölgar störfum í þjóðfélaginu og það styrkir atvinnusvæðið og byggðirnar í nágrenni við Grundartanga og því ber sérstaklega að fagna.