Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 11:48:18 (4403)

1997-03-13 11:48:18# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:48]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í svari mínu áðan þá mun ég leggja mig fram um það að geta svarað þessum spurningum og að vinnu ráðuneytisins verði beint í þann farveg að menn fái svar við þessum mikilvægu spurningum sem hér er spurt um.

Ég vil hins vegar mótmæla því sem fram kom í máli hv. þm. að stjfrv. sem slíkt eins og það liggur hér fyrir sé vanbúið vegna þess að nefndin undir forustu hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar hafði öll þessi gögn til hliðsjónar þegar unnið var að undirbúningi málsins og staðreyndin er sú að um þessi mál hefur mikið verið skrifað á undanförnum árum og margt af því, þó að nokkuð sé um liðið, á fyllilega við enn þann dag í dag. En þetta förum við betur yfir síðar við umræðuna og í nefndarstarfinu.