Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 11:51:07 (4405)

1997-03-13 11:51:07# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[11:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Með því frv. sem hér er til umfjöllunar er verið að stíga mjög afdrifaríkt skref sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar á peninga- og fjármagnsmarkaðinn ef ekki er farið að öllu með gát. Því er mikilvægt að allur undirbúningur sé vandaður, markmiðssetningar skýrar og mat á áhrifum breytinganna liggi ljóst fyrir, til að mynda á markaðsvexti, erlend lánskjör, fákeppni eða einokunartilhneigingar í bankakerfinu, hver áhrif verði af því að afnema ríkisábyrgð á bönkunum, hver sé staða tryggingarsjóðs til þess að mæta skakkaföllum og um það vil ég spyrja ráðherra sérstaklega við þessa umræðu og hvaða áhrif breytingarnar hafa á öryggi innstæðna.

Eftir því sem ég kemst næst hefur ekki nýverið farið fram þjóðhagsleg úttekt með ítarlegri markmiðssetningu sem í felst skilgreining og útfærsla þeirra markmiða sem starfsemi bankakerfisins er ætlað að ná vegna áforma um hlutafélaga- og einkavæðingu bankakerfisins, áhrif þeirra breytinga á fjármagnsmarkaðinn og ríkisbúskapinn og framkvæmd þjóðhagslegrar kostnaðarábatagreiningar á fyrirhugaðar framkvæmdir.

Það var raunverulega ástæða þess að ég og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson lögðum fram þessa fyrirspurn. Hver er ástæðan fyrir að hún kom ekki fram fyrr og fyrr en frv. um breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélag? Það er einfaldlega vegna þess að ég taldi víst að ráðherrann hefði unnið sína heimavinnu, látið fara fram ítarlega úttekt á áhrifum þeirra breytinga sem hér eru fyrirhugaðar og taldi að ég mundi finna í greinargerð með frv. öll efnisatriði um það mál. Þegar það var ekki þá kannaði ég hjá ýmsum stofnunum, efnahagsstofnunum, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka, bankaeftirliti og fleiri aðilum hvort þeir hefðu metið þessi áhrif og svo var ekki. Hæstv. ráðherra hafði ekki látið t.d. uppfæra þær mörgu álitsgerðir sem lágu frammi 1991 þegar þá voru áform um að hlutafélagavæða bankana. Þess vegna má raunverulega segja, virðulegi forseti, að málið, fyrst að þessi áhrif liggja ekki fyrir, sé raunverulega vanbúið til 1. umr.

Auðvitað er mikilvægast af öllu að þessar úttektir fari fram, a.m.k. áður en málið verður afgreitt frá þinginu, og áhrifin af breytingunum verði kynnt fyrir Alþingi og þeirri þingnefnd sem fjallar um málið. Hæstv. ráðherra hefur lýst því hér yfir vegna þeirra spurninga sem ekki er hægt að svara við 1. umr. af því að það þarf að fara fram fagleg úttekt og mat á þeim, að það muni hann láta gera á sínum vegum, þ.e. að gera á vegum ráðuneytisins þá úttekt sem um er beðið í 2. tölul. þessarar fyrirspurnar.

Ríkisstjórnin virðist álíta að einkavæðing sé töfralausn sem hvers manns vanda leysir og minna haft fyrir því að meta áhrif hennar á hagsmuni þjóðarheildarinnar eins og hér hefur komið fram. Keppikeflið virðist helst vera einkavinavæðing ríkisstjórnarflokkanna. Fákeppni og einokunaraðstaða fárra er orðin vandamál í okkar þjóðfélagi sem á umliðnum árum hefur leitt til valdasamþjöppunar og gert þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari.

Með einkavæðingu alls bankakerfisins sem greinilega er stefnt að er farið inn á braut sem í enn meira mæli mun færa völd og peninga til fárra á kostnað þjóðarheildarinnar. Að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög til að jafna samkeppnisaðstæður á markaðnum og gera bankakerfið hagkvæmara og skilvirkara virðist ekki vera aðalatriðið heldur er það nauðsynlegt skref til að opna fyrir einkavæðinguna og færa fjármagn til örfárra fjársterkra einstaklinga sem smátt og smátt eru að eignast Ísland, ekki aðeins varðandi völd og áhrif heldur eru peningar þjóðarinnar í æ meira mæli að færast á hendur þeirra.

Herra forseti. Ef markmiðið er að jafna samkeppnisaðstæður á markaðinum, gera bankakerfið hagkvæmara og skilvirkara þannig að það verði meira rekið út frá viðskiptalegum sjónarmiðum, m.a. með það að markmiði að afnema pólitísk afskipti og forréttindi toppanna í bankakerfinu, þá er ekkert endilega nauðsynlegt að fara hlutafélagaleiðina. Mér fannst t.d. þegar við ræddum þetta mál hér um daginn, hv. þm. Geir Haarde gera það að aðalmarkmiði, hlutafélagavæðinguna, en það er það í raun og sanni ekki vegna þess að ef markmiðið væri að ná fram kostum hlutafélagavæðingarinnar þá er hægt að fara aðra leið.

Það er beinlínis verra að fara hlutafélagaleiðina nema meiningin sé að fara út í einkavæðingu bankanna eins og hér er stefnt að. Hlutafélagaleiðin er nefnilega lykillinn að einkavæðingunni og þess vegna er hún valin. Það kom reyndar fram í skýrslu bankastjórnar Seðlabankans frá 1991 um breytingu á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög og mati erlends ráðgjafarfyrirtækis sem Seðlabankinn fékk til að leggja mat á breytinguna, en hjá ráðgafjafyrirtækjunum kom fram að breyting á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög hefði engan sérstakan tilgang nema ætlunin sé að ganga enn lengra með sölu hlutafjár til einkaaðila. Í skýrslu Seðlabankans kom fram orðrétt, með leyfi forseta:

,,Sé markmiðið eingöngu að ná fram breytingum til batnaðar á stjórnarháttum og rekstrarhagkvæmni ríkisviðskiptabankanna án þess að draga úr eignarhluta ríkisins eða stefna að því að einkavæða ríkisbankana með tíð og tíma er vafasamt að breyting þeirra í hlutafélög skipti í raun miklu máli. Aðrar leiðir eru fyrir hendi ...`` Og ég bið hæstv. ráðherra að taka eftir því. ,,Aðrar leiðir eru fyrir hendi til þess að bæta skipulag og starfshætti ríkisviðskiptabankanna, t.d. með breytingum á bankalögum.``

Ég vitna hér orðrétt í greinargerð bankastjórnar Seðlabankans um þetta efni, en þeir nefna hvaða leiðir er hægt að fara aðrar en að hlutafélagavæða til þess að ná, við getum kallað það samkeppnisvæðingu, og þeim jákvæðu áhrifum sem hlutafélagaformið hefur. Þeir segja, með leyfi forseta:

,,Má þar t.d. nefna eftirfarandi breytingar: Allir starfsmenn, þar á meðal aðalbankastjórar og útibússtjórar, verði ráðnir af bankastjórn og beri eingöngu ábyrgð beint gagnvart henni. Valinn verði formaður bankastjórnar sem ber einn ábyrgð á framkvæmdastjórn bankans gagnvart bankaráði. Bankaráð taki engar beinar ákvarðanir varðandi framkvæmdastjórn bankans, t.d. með því að ákvarða vexti eða aðra viðskiptaskilmála bankans. Breytt verði eiginfjárákvæðum bankanna er geri ríkisviðskiptabönkunum kleift að gefa út víkjandi lán er teljist til eigin fjár, en að því atriði verður nánar vikið síðar.``

Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu að hægt er að fara aðra leið ef markmiðið væri að ná fram kostum hlutafélagavæðingar. Og ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Af hverju var þessi leið ekki farin? Þetta er sú leið sem ég teldi að hefði átt að fara. Með því yrði komið í veg fyrir ókosti einkavæðingarinnar sem leiðir af hlutafélagavæðingunni. Þeir eru í fyrsta lagi að ábyrgð ríkssjóðs er virk vegna skakkafalla einkabankanna eins og ég mun koma að síðar og reyndin hefur orðið víða erlendis. Í öðru lagi: Verri lánskjör á erlendum mörkuðum. Í þriðja lagi: Hættu á vaxtahækkunum og auknum lántökukostnaði á innanlandsmörkuðum og í fjórða lagi og ekki síst koma í veg fyrir valda- og eignasamþjöppun í bankakerfinu.

Ég álít það og margir fleiri sem talað hafa á undan mér að nóg sé komið af því. En með þeirri leið sem ég tala fyrir hefði verið hægt að ná fram kostum hlutafélagavæðingarinnar án þess að ókostir hennar sem ég hef hér lýst fylgdu og það tel ég mjög mikilvægt. Ég hef haft þá trú að fyrir hæstv. ráðherra vekti fyrst og fremst að ná fram kostum hlutafélagavæðingarinnar án þess að fara út í einkavæðingu og ég hef sýnt fram á og mun gera frekar síðar í mínu máli að hægt er að ná fram þeim kostum án þess að hlutafélagavæða.

Við hefðum sem sagt getað breytt bankalögunum með því að draga úr pólitískum áhrifum á ákvarðanir bankanna með því að breyta fyrirkomulagi á stjórnun bankanna. Einn aðalbankastjóri yrði ráðinn sem beri alfarið ábyrgð á daglegum rekstri einkabankanna og taki allar ákvarðanir, svo sem um útlán, lánskjör, gjaldskrár og ráðningu starfsliðs en bankaráð gegni fyrst og fremst hlutverki almennrar stefnumótunar og eftirlits og ráði bankastjóra og segi þeim upp starfi með hliðsjón af þeim árangri sem næst í rekstri bankanna. Mér skilst á þeim orðaskiptum sem hafa orðið um þetta mál að það liggi meira að segja alls ekki fyrir að ráðinn verði einn aðalbankastjóri sem beri alla ábyrgð á rekstrinum eftir að hlutafjárvæðingin hefur átt sér stað, heldur muni kannski verða ráðnir tveir eða þrír bankastjórar samkvæmt helmingaskiptaformúlu ríkisstjórnarflokkanna. Það er nauðsynlegt að fá það upplýst vegna þess að ef svo er, þá er meira að segja sú leið sem ég mæli hér fyrir enn hagkvæmari en hlutafélagaleiðin.

[12:00]

Síðan er auðvitað hægt, án þess að hlutafélagavæða, að fara þá leið að bankaráðið yrði ekki kosið af Alþingi. Það mætti gera með breytingu á bankalögunum og það mætti hugsa sér að viðskrh. tilnefndi í bankaráð ásamt t.d. Seðlabankanum og að starfsmenn bankans fengju a.m.k. tvo fulltrúa í bankaráð. Ég spyr: Er það fyrirhugað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra, sem skilur það eftir algerlega opið í frv., sem er mjög óvanalegt, hve fjölmennt þetta bankaráð á að vera? Ég tel alls ekki boðlegt fyrir þingið að skilja eftir opið hvort bankaráðið verði þriggja, fimm eða tíu manna. Það hlýtur að koma fram tillaga um það, ef ekki frá efh.- og viðskn. þá frá öðrum þingmönnum, að skýrt verði kveðið á um það hve fjölmennt bankaráðið á að vera. Og ég teldi eðlilegt að starfsmenn ættu sinn fulltrúa í bankaráðinu og spyr hæstv. ráðherra um það: Kemur til greina að starfsmenn ættu aðild að bankaráðinu?

Síðan væri hægt að gera það án þess að hlutafélagavæða að laun stjórenda bankanna yrðu ákveðin af Kjaradómi og forréttindi þeirra í lífeyrismálum afnumin.

Það er nauðsynlegt að fá upplýst það sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Ágúst Einarsson, spurði ráðherrann um í tilefni þeirrar umræðu sem varð hér í gær þegar upplýst var að samgrh. telur að með hlutafélagavæðingu Pósts og síma hafi öll stjórnsýslutengsl milli ráðuneytisins og félagsins rofnað og telur til að mynda að Alþingi geti ekki fengið upplýsingar um þann hluta starfseminnar sem snýr að kjörum æðstu yfirmanna Pósts og síma, það eigi að teljast trúnaðarmál. Ég minnist þess, herra forseti, að þegar upplýst var hér um starfskjör bankastjóranna að þá sagði hæstv. viðskrh., og ég vona að hann sé að hlýða á mitt mál, að hann teldi að endurskoða ætti launakjör bankastjóranna þegar þeim hefði verið breytt í hlutafélög. Ég skildi það svo að það væri þá til lækkunar og allar þær miklu sporslur sem þeir hafa af setu í alls konar stjórnum og ráðum sem tengjast bankanum yrðu færðar inn í launakjörin. En er það svo, herra forseti, og ég spyr hæstv. viðskrh. um það hvort að eftir að Alþingi mun hafa afgreitt þetta mál þá hafi dyrum bankastofnananna verið lokað fyrir Alþingi og að það muni þá ekki fá neinar upplýsingar í hvaða farveg launakjör bankastjóranna fara sem að margir hafa gagnrýnt. Ég tel það mjög mikilvægt fyrir áframhald á hlutafélagavæðingu og einavæðingarhraðferð ríkisstjórnarinnar að þingið verði í eitt skipti fyrir öll upplýst um það hvernig það mun hafa aðgang að starfsemi bankanna, þar með talið upplýsingum um starfskjör bankastjóranna og æðstu stjórnenda þar eftir að bönkunum hefur verið breytt í hlutafélög. Ég trúi því ekki, ekki fyrr en ég heyri það, að hæstv. viðskrh. sé sömu skoðunar og hæstv. samgrh. um það efni. (Viðskrh.: Ég er sammála þér.) Ja, ég fagna þessu mjög, herra forseti, sem kemur fram hjá hæstv. viðskrh. án þess að hann komi hingað í ræðustólinn. Hann er nákvæmlega sammála mér um hvernig eigi að taka á þessu máli og að Alþingi hafi eftir að hlutafélagavæðingin hefur átt sér stað algjörlega óbreyttan aðgang að upplýsingum um starfsemi bankans, og þar með töldum launakjörum. Ég bið hæstv. ráðherra að staðfesta þetta hér í ræðustól þannig að þetta sjáist í Alþingistíðindum og það sé opinbert þá fyrir alþjóð, sem betur fer, að hæstv. viðskrh. hafi aðra skoðun en hæstv. samgrh. sem vill læsa og loka allt inni fyrir þjóðinni og fyrir Alþingi, loka það inni og þar á allt að fara fram fyrir luktum dyrum.

Ég tel líka að án þess að hlutafélagavæða sé hægt að setja bankanum ströng arðsemis- og rekstrarmarkmið. Þeir lúta nú sömu reglum um eiginfjárstöðu og einkabankarnir og það er hægt að setja þeim ströng arðsemis- og rekstrarmarkmið. Reyndar held ég, virðulegi forseti, að það megi segja að ríkisbankarnir séu á margan hátt kannski betur reknir en einkabankarnir. Og af því að ég er að tala um arðsemis- og rekstrarmarkmið þá hef ég látið taka saman fyrir mig hjá bankaeftirlitinu svör við ýmsum spurningum um afkomu annars vegar ríkisviðskiptabankanna og hins vegar um afkomu einkabankanna. Þar kemur margt mjög athyglisvert í ljós. M.a. virðist það svo að Landsbankinn standi sig best að því er það varðar að taka sem minnst þjónustugjöld, að því er varðar vaxtamun ef við skoðum það sem hlutfall af efnahagsreikningi. Þá kemur það fram að Íslandsbanki er t.d. með í hreinar rekstrartekjur, og þar með talið það sem hann hefur af þjónustugjöldum og vaxtamun, um 7% sem hlutfall af efnahagsreikningi. En hjá Landsbankanum sem margir hér eru að skamma eru rekstrartekjurnar sem hlutfall af efnahagsreikningi ekki nema 5,9%. Í Búnaðarbankanum er það álíka og hjá Íslandsbanka og þar virðast hreinar rekstrartekjur vera mestar hjá sparisjóðunum, 7,8%, sem kom mér mjög á óvart. Ég spyr hæstv. ráðherra: Skýrist þetta af því að sparisjóðirnir og Íslandsbanki taki meiri þjónustugjöld, meiri vaxtamun og hærri þóknanir af sínum útlánum en t.d. Landsbankinn? Ég spyr ráðherrann um þetta og óska eftir að fá svar við því.

Ég er að tala um leiðir til þess að jafna samkeppnisaðstæður í bankakerfinu án þess að fara hlutafélagaleiðina. Við getum nefnt skattalega meðferð sem er hagstæðari hjá einkabönkunum en ríkisviðskiptabönkunum, en bent er á það í nýlegri greinargerð, frá 1995 um samkeppnisstöðu bankanna, að hægt væri að breyta hluta af eigin fé ríkisviðskiptabankanna í stofnfé sem fengi sömu skattalega meðhöndlun og hlutafé. Einnig að gerð sé arðsemiskrafa til viðskiptabanka í eigu ríkisins, svo og krafa um arðgreiðslur sem sé sambærileg við þá sem tíðkast hjá einkabanka. Um leið þurfi að tryggja jafnan aðgang ríkisviðskiptabankanna og einkabankanna að nýju fé og bent er á að þetta mætti t.d. gera með því að taka víkjandi lán á markaði.

(Forseti (ÓE): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann sé á það heppilegum stað í ræðu sinni að hægt sé að gera hlé.)

Það hentar mér prýðilega.

(Forseti (ÓE): Það stendur vel á. Þá verður þessum fundi frestað til kl. 13.15.)