Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 14:40:17 (4409)

1997-03-13 14:40:17# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[14:40]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður taldi það vera einn af kostum þess að hlutafélagavæða og einkavæða bankana að með því væri verið að afnema ríkisábyrgð á skuldbindingum bankanna. Nú vil ég spyrja hv. þm. að því hvort hann sé þeirrar skoðunar að þegar búið verður að einkavæða bankana þá sé ríkið þar með laust við það að vera ábyrgt fyrir skuldbindingum bankanna.

Ég vitnaði til þess í ræðu minni áðan að í greinargerðum og skýrslum sem lágu fyrir fyrir nokkrum árum síðan um þetta atriði frá mörgum aðilum kom fram það sjónarmið sem var sameiginlegt hjá öllum þessum aðilum að ef einkabankar yrðu fyrir skakkaföllum og illa færi, einkabankar yrðu gjaldþrota, þá væri ríkið ábyrgt fyrir skuldbindingum og skattgreiðendur þyrftu að standa undir þeim líkt og gerðist fyrir nokkrum árum á hinum Norðurlöndunum. Í Finnlandi til að mynda þurfti ríkið að grípa inn í og koma með fjármagn og ábyrgðir sem samsvaraði 8% af þjóðarframleiðslu. Ef við hefðum lent í svipuðum skakkaföllum í bankakerfinu sem hefðu numið 8% af þjóðarframleiðslu þá værum við að tala þar um 40 milljarða. Það er nefnilega svo, eins og stóð í einni greinargerðinni, að það er tekin áhætta á því að einkaaðilar græði í örfá ár í bankakerfinu en ef illa fer þá er öllu vísað á ríkissjóð. Gróðinn fer til einkaaðilanna en ef þeir tapa þá þurfa skattgreiðendur að bera það. Því spyr ég hv. síðasta ræðumann: Telur hann virkilega að ríkissjóður sé laus undan allri ábyrgð á skuldbindingum í bankakerfinu ef bankarnir verða einkavæddir?