Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 14:42:26 (4410)

1997-03-13 14:42:26# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[14:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þegar bankar verða gjaldþrota, eins og varð í Noregi, eða allt að því gjaldþrota, þá tapa eigendur öllu sínu fé. Það byrjaði þannig. Þeir byrjuðu á að tapa öll sínu fé og ríkið tók yfir. Það er eðlilegt. Þeir tóku áhættu af rekstrinum og töpuðu.

Hvort ríkið tryggi innstæður? --- Það hefur oft gerst og gerist reyndar oftar þegar einn banki af fjöldamörgum, eins og hefur gerst í Þýskalandi, verður gjaldþrota að þá koma aðrir bankar til hjálpar til þess að halda uppi trausti manna á innlánsforminu og þeir tryggja þá innstæður upp að vissu marki. En alls ekki aðrar skuldbindingar bankanna eins og bankabréf og annað slíkt. Það er því þekkt að ríkisvaldið eða aðrir bankar grípi inn í og bjargi innstæðum vegna þess að það er litið þannig á að bankaeftirlitið hafi brugðist.

Ef bankaeftirlitið er sterkt þá á fólk ekki að tapa innstæðum. Það hefur eitthvað brugðist í bankaeftirlitinu þegar það gerist og þá telja menn að ríkisvaldið beri ábyrgð á því. En yfirleitt er það þannig að þá eru innstæður tryggðar upp að vissu marki eða bara hluti af innstæðum, t.d. ekki vextir, og oftast er það þannig þegar markaðurinn er stór að aðrir bankar grípa inn í og borga þessar bætur. Enda er það svo t.d. hjá sparisjóðunum að þeir eru með ákveðinn tryggingarsjóð, sem er orðinn nokkuð öflugur, sem á einmitt að standa undir því að tryggja innstæður ef illa fer hjá einum sparisjóði. Þannig er ríkið í eðli sínu laust við ábyrgð á bönkunum sem slíkum vegna þess að það ber t.d. ekki ábyrgð á bankabréfum eða erlendum lánum sem bankarnir hafa tekið.