Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 14:44:22 (4411)

1997-03-13 14:44:22# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[14:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisvert sjónarmið sem þarna kemur fram og ég vona að svör ráðherrans, en ég hef beint sambærilegri spurningu til hans, séu önnur en hjá hv. þm. Það er ljóst að það verður að liggja fyrir áður en málið er afgreitt frá Alþingi hvernig innstæður sparifjáreigenda til að mynda eru tryggðar þegar verið er að fara út í hlutafélagavæðingu eða einkavæðingu í bankakerfinu. Mér fannst hv. þm. slá úr og í að því er það varðaði. Og það er nýtt í mínum eyrum ef það eru einhverjir aðrir bankar sem beri þar ábyrgð. Ber Íslandsbanki þá ábyrgð á Landsbankanum eftir að hann hefur verið einkavæddur? Eða hvað er það sem hv. þm. meinar? Hann vill meina það að ríkissjóður beri bara ábyrgð á einhverjum hluta, innstæðum en ekki vöxtum. Eiga þá sparifjáreigendur sem fjárfesta í einkabanka á hættu að tapa fé eftir þessa einkavæðingu? Ríkir ekki sami skilningur hér og í öðrum löndum að ef einkabankar eða bankar verða fyrir skakkaföllum að eigendur séu öruggir með sínar innstæður? (Gripið fram í: Tryggingarsjóðirnir.) Tryggingarsjóðirnir, segir hæstv. ráðherra. Það er gott að hann kom að því vegna þess að ef ég skil þetta rétt átti hv. þm. sæti í þeirri nefnd sem komst að þessari niðurstöðu þó að þingmaðurinn væri ekki alls kostar sáttur við það. Hver er staða tryggingarsjóðanna að mati hv. þm.? Telur hann að tryggingarsjóðirnir séu í stakk búnir til að standa undir skakkaföllum í bankakerfinu ef illa fer? Það er grundvallaratriði að við séum ekki að ana út í einhverjar breytingar í bankakerfinu sem geti orðið þess valdandi að sparifjáreigendur séu ekki öruggir með innstæður sínar.