Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 14:46:28 (4412)

1997-03-13 14:46:28# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[14:46]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta þann misskilning að ég hafi verið í nefndinni. Ég var ekki í nefndinni þannig að ég veit ekkert hvað þar fór fram. En varðandi það að sparisjóðirnir geti tapað sínu fé, þá er það nú einu sinni svo í lífinu, hv. þm., að það er áhætta í öllu. Það er ekki hægt að lifa áhættulaust. Þetta vita náttúrlega sparifjáreigendur sem aðrir. Það er áhætta að leggja inn í banka. Það er áhætta að kaupa hús. Það er áhætta að sigla skipi eins og við vitum. Það er áhætta úti um allt í lífinu og við komumst ekki hjá henni. Það er ekki hægt að gera þjóðfélagið áhættulaust, þó að við gjarnan vildum. En við byggjum upp alls konar öryggi í kringum það. Við höfum sjóði, tryggingarsjóði, við höfum mjög ströng lög um banka, við höfum BIS-reglurnar, við höfum bankaeftirlit til að framfylgja þessu öllu saman, mjög sterkt og gott bankaeftirlit. Svo höfum við þessa siðferðilegu ábyrgð sem aðrir bankar hafa gagnvart því ef einn þeirra hrynur. Ef þeir hrynja allir þá geta þeir það náttúrlega ekki. Það er nú einu sinni þannig að sumt er ekki hægt að tryggja. En það hefur komið í ljós t.d. í Þýskalandi, ég þekkti það, að aðrir bankar brugðust þannig við að þeir tryggðu innstæður upp að vissu marki til þess að halda uppi trú á innstæðuforminu. Þetta var þeirra eigið val. Síðan getur verið að innstæðueigendur eigi kröfu á ríkið vegna þess að bankaeftirlitið hafi brugðist. Þannig að ef öll þessi öryggisnet bregðast þá geta menn að sjálfsögðu tapað innstæðum. Og menn þurfa að hafa vit á því að eins og í öllu öðru, t.d. þegar ég fer út að keyra á eftir þá get ég lent í slysi og það er ekkert sem hindrar það.