Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 14:48:27 (4413)

1997-03-13 14:48:27# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[14:48]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Við þessa 1. umr. hefur verið beint til mín nokkrum spurningum og ég ætla að snúa mér beint að því að svara þeim.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því yfir að hann væri fylgjandi frv. um hlutafjárvæðinguna eins og það lægi fyrir en spurði þó ákveðinna spurninga í þeim efnum sem snúa þá fyrst og fremst að framkvæmdinni og það er eðlilegt.

Í fyrsta lagi spurði hann hvernig staðið yrði að hlutafjáraukningunni í bönkunum. Fleiri hv. þm. hafa spurt um þetta, t.d. hv. þm. Ágúst Einarsson og Guðmundur Árni Stefánsson. Sama gildir um hv. þm. Svavar Gestsson. Reglan er skýr eins og hún liggur fyrir í lögunum. Á hvaða tíma þessi hlutafjáraukning muni eiga sér stað mun auðvitað ráðast af því hver þörf bankanna verður fyrir eigið fé. Fyrst og fremst mun þetta ráðast af því hvernig mat bankanna á því verður hver þörf þeirra er fyrir eigið fé í þeirri vaxandi samkeppni sem er fram undan á þessu sviði. Ég er því ekki tilbúinn til þess að gefa upp dagsetningar í þeim efnum. Ég hygg þó að það sé styttra í það en menn almennt gera sér grein fyrir að þörfin fyrir báða bankana, eftir að búið er að breyta þeim í hlutafélög, sé til staðar til þess að þeir geti tekið þátt í þessari samkeppni. Sú regla verður innleidd árið 2001 að þá má enginn banki lána meira en 25% af eigin fé sínu til eins aðila. Það þýðir, ef við tökum dæmi af Búnaðarbanka Íslands, sem er með eigið fé í kringum 4 milljarða kr., að hann getur ekki lánað nema 1 milljarð til eins aðila og það sjá allir að þrátt fyrir að við séum með lítið atvinnulíf á Íslandi þá er þetta allt of veik eiginfjárstaða til þess að geta þjónað íslensku atvinnulífi vel.

Hvernig að framkvæmdinni verður staðið? Þar tel ég eðlilegast að einkavæðingarnefnd verið falið það verk að sjá um undirbúning slíkra verka. Ástæðan er sú að þar hafa núna verið mótaðar skýrar verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja. Ég bendi hv. þm. á að lesa bækling sem einkavæðingarnefnd hefur gefið út um hvernig að slíku skuli staðið. Það eru mjög skýrar og ótvíræðar reglur um hvernig að þeim undirbúningi skuli staðið. Í frv. eru hins vegar skýrar yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað skuli gert. Það er stefnt að mjög dreifðri eignaraðild við útboð á nýju hlutafé og sérstaklega verði kannað hvort starfsmenn bankanna geti haft þar forgang fram yfir aðra.

Hv. þm. spurði líka um stjórnskipulag nýs banka. Sama gerðu hv. þm. Ágúst Einarsson og Svavar Gestsson. Hvað varðar bankastjórana þá er það alveg klárt samkæmt þessu frv. að bankastjórarnir hafa ekki tryggingu fyrir endurráðningu í þessum nýju félögum, þ.e. bankastjórarnir, aðstoðarbankastjórarnir, staðgengill bankastjóra og endurskoðandi bankans. Hins vegar verður kveðið á um það í samþykktum fyrir nýtt hlutafélag hvert stjórnskipulag nýs banka verður og þá um leið hversu margir bankastjórar, hvort sem þeir verða einn, tveir, þrír, fjórir eða hversu margir þeir verða, sem þar munu starfa. Það mun verða gengið út frá því í samþykktum fyrir hlutafélagið. Eitt af þeim verkum sem nefnd samkvæmt 2. gr. frv. á að hafa með höndum er að undirbúa samþykktir fyrir þessi nýju félög.

Hv. þm., og einnig hv. þm. Svavar Gestsson, spurði um bankaráðin. Um bankaráðin verður líka kveðið á í samþykktum þessara nýju félaga. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að bankaráðin eigi að vera fimm manna og mun leggja upp með það í þeirri vinnu. Ég geri mér grein fyrir því að hér er verið að stíga tiltölulega róttæk skref frá fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði í langan tíma, að Alþingi hafi kosið bankaráðin fyrir ríkisviðskiptabankana. Þar hefur sú regla verið í gildi að bankaráðin hafa endurspeglað pólitískt landslag í landinu á hverjum tíma, undantekningin frá þessu er sú að í Landsbankanum er stjórnarandstaðan núna með meiri hluta manna í bankaráðinu. Ég er þeirrar skoðunar, án þess að það þurfi endilega að velja alþingismenn til þeirra starfa, að það sé mikilvægt í fyrstu að bankaráðin verði skipuð mönnum sem við getum talið að standi fyrir hið pólitíska landslag í landinu á hverjum tíma á meðan þetta er í 100% eigu ríkisins. Aðalatriðið er að það verði valdir einstaklingar til þeirra starfa sem hafi hæfni, reynslu, þekkingu og getu til þess að sinna þeim ábyrgðarstörfum sem munu hvíla á bankaráðunum, bæði samkvæmt lögum og samkvæmt þeim samþykktum sem munu gilda fyrir banka.

Það er ljóst að hægt hefði verið að ganga öðruvísi fram við undirbúning þessa máls og koma með frv. inn í þingið sem gerði ráð fyrir mun róttækari breytingum heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir. Eftir mjög víðtækt samráð við formenn bankaráða beggja bankanna, við bankastjóra beggja bankanna og við starfsfólk beggja bankanna varð þessi niðurstaða um það hvernig þetta skyldi gert. Undirbúninginn að þessu mun nefndin sem starfar samkvæmt 2. gr. annast. Og af því hv. þm. Svavar Gestsson spurði líka áðan hverjir yrðu í þessari nefnd eða nefndum fyrir hvorn banka þá vil ég segja að ég held að það sé mikilvægt að reyna að tengja þar saman framkvæmdarvaldið og bankana sem slíka vegna þess að nefndirnar eiga að starfa í umboði viðskrh. en í nánu samráði við bankana. Og af því hv. þm. Svavar Gestsson spurði sérstaklega um hvort starfsmenn yrðu hafðir þar með í ráðum þá hafa starfsmenn spurt nákvæmlega þessara sömu spurninga við þennan undirbúning. Svarið hefur verið þetta: Ég hef ekki lofað því að starfsmennirnir fái sæti í þessum nefndum. Ég hef hins vegar lofað því að starfsmennirnir muni fá að fylgjast nákvæmlega með því sem þarna mun gerast eða með öðrum orðum að þeir muni fá að fylgjast með starfi nefndanna og vinna að þessum undirbúningi. Hins vegar hefur einfaldlega ekki verið tekin ákvörðun um hvernig þetta skuli gert.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson spurði: Af hverju þessi fjögurra ára regla um sölu á eignarhlutum ríkisins? Ástæðan er sú að við teljum að það sé nauðsynlegt og ég tel að það sé nauðsynlegt að leyfa bönkunum að fóta sig í nýju rekstrarumhverfi sem mun verða með formbreytingunni. Þeir þurfa til þess ákveðinn tíma. Fyrst og fremst þurfa þeir þó á því að halda að auka eiginfjárhlutfall sitt, styrkja stöðu sína þannig og á grundvelli 6. gr. frv. er hægt að bjóða út nýtt hlutafé en að bíða með í fjögur ár að selja eignarhluti ríkisins í þessum bönkum.

Hversu mikið verður selt í einu? spurði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Á þessari stundu tel ég ekki hægt að segja nákvæmlega til um það. Hins vegar mun það fyrst og fremst ráðast af því hver þörf hvors banka fyrir sig mun verða á að auka eiginfjárstöðu sína og það verður að nokkru leyti mat stjórnenda bankans hverju sinni, aðalfundar síðan að taka síðan ákvörðun um það hversu mikið hlutafé skuli aukið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði um niðurstöður þeirrar nefndar sem vann að þessum undirbúningi. Það er rétt hún fylgir ekki hér með sem fskj. með frv. en það er alveg sjálfsagt að hún verði lögð fyrir nefndina til umfjöllunar og ég mun beita mér fyrir því að það verði gert.

Hv. þm. spurði líka um samstarfið við Samband íslenskra bankamanna og starfsmannafélög bankanna. Ég tel að það samstarf hafi verið býsna víðtækt. Í upphafi kallaði ég fulltrúa SÍB og starfsmannafélaganna á minn fund til að kynna fyrir þeim hvernig skyldi staðið að fyrirhugaðri breytingu, skrifaði þeim síðan bréf og bauð þeim upp á þátttöku í þessu nefndarstarfi innan bankanna til að byrja með þar sem starfsmennirnir voru hafðir með í ráðum. Bankastjórarnir og bankaráðin leiddu þá vinnu og starfsmenn voru hafðir með. Síðan var opinn aðgangur starfsmannafélaganna beggja að nefnd þeirri sem hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson stýrði. Þegar þær tillögur lágu fyrir voru þær kynntar fyrir fulltrúum beggja starfsmannafélaganna og Sambandi íslenskra bankamanna. Síðan, við lokaundirbúning málsins, átti ég sjálfur í tvígang fund með formönnum beggja starfsmannafélaganna og formanni Sambands íslenskra bankamanna og kynnti nákvæmlega fyrir þeim hvað í frumvörpunum var. Starfsmennirnir gerðu athugasemdir við einstaka þætti frv. Við sumu af því sem fram kom hjá starfsmönnunum var orðið. Eitt dæmi sem ég get nefnt og við gátum ekki orðið við var það að starfsmennirnir óskuðu eftir því að ekki stæði að um sambærilegt starf væri að ræða heldur að um sama starf væri að ræða. Við þessu var ekki hægt að verða einfaldlega vegna þess að þarna verður um sitthvorn rekstraraðilann, sitthvorn lögaðilann, að ræða að ræða. Þannig að starfsmaður sem vinnur hjá Landsbanka Íslands í dag getur ekki fengið sama starf, hvernig sem á það væri litið hjá Landsbanka Íslands hf. Hins vegar getur hann fengið sambærilegt starf og það stendur viðkomandi starfsmönnum til boða.

[15:00]

Hins vegar kom fram á síðustu stundu hjá starfsmönnunum að þeir hefðu áhyggjur af hversu hátt hlutfall þetta var sem mátti auka hlutafé í bönkunum upp í 49% og m.a. fyrir ábendingar þeirra var leitað eftir samstöðu innan stjórnarflokkanna um að lækka þetta hlutfall. Það var gert án þess að ég sé að segja með því að starfsmennirnir séu sáttir við það að það skuli endilega vera 35%. En ég hygg að það sé kannski það eina sem starfsmannafélögin hafa við þetta frv. að athuga eins og það liggur fyrir, að það er ákveðinn ótti í starfsmönnum hvað þetta varðar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að það hefði þurft að verða meiri uppstokkun á fjármagnsmarkaði heldur en sú sem hér er boðuð. Eins og hv. þm. Guðni Ágústsson fór yfir hefur þessi formbreyting ríkisviðskiptabankanna verið á dagskrá ríkisstjórna í ein tíu ár. Eins og við öll vitum hefur enginn árangur orðinn í þeim efnum ef undan er skilinn árangurinn sem varð af sameiningu fjögurra banka í einn hlutafélagabanka árið 1989 þegar Íslandsbanki varð til.

Um þetta mál hefur ekki verið mjög mikil pólitísk samstaða. Ég held hins vegar að þó sé kannski meiri pólitísk samstaða um þessa formbreytingu nú heldur en áður. Ég dreg ekki í efa að menn hefðu getað farið aðrar leiðir í þessum efnum. Ég hef hins vegar ekki trú á því að tekist hefði að skapa kyrrð og ró um þetta mál með því að byrja á að sameina eða ætla sér að sameina Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Þegar fram líða stundir, ég veit ekki hvenær, þá er ég ekki frá því að það geti gerst að þessir bankar muni renna saman. Það er ég þó ekki að boða hér og nú heldur. Hins vegar er það að gerast á fjármagnsmörkuðum, ekki bara hér heldur í löndunum í kringum okkur, að bankastofnanir eru að renna saman til þess að stækka, verða öflgri til að taka þátt í samkeppninni. Tryggingafélög og bankar eru að renna saman, lánasjóðir og bankar eru að renna saman og þannig mætti lengi telja. Fjármögnunarfyrirtæki og bankar eru að renna saman, allt í þeim tilgangi að veita fjölbreyttari þjónustu og líka í þeim tilgangi að styrkja stöðu sína á markaði.

Það hefur komið fram hjá einum aðalbankastjóra Landsbankans, formanni bankastjórnar þar, Björgvini Vilmundarsyni, að það væri um milljarðs króna sparnaður af því að slá Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands saman. Í hverju liggur sá sparnaður? Hann liggur í því að loka útibúum víða um land. Ég held að það sé alveg hárrétt eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að það er hægt með því að loka útibúum víða um land að spara verulega fjármuni. En þá spyr ég hv. þm. á móti: Hvar eru þau útibú sem þar á að loka? Það hefur einmitt vafist fyrir mönnum í nokkuð langan tíma að finna lausn á því.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvort ekki væri þörf fyrir einn ríkisbanka. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Ég held að það sé ekki ástæða til að binda sig við það að hér sé einn ríkisbanki starfandi. Ég held að við séum ekki tilbúin til að veita fjármunum frá almenningi, af skattpeningum almennings, til að standa undir sífellt auknum kröfum um eigið fé í einum ríkisviðskiptabanka. Það er mjög mikilvægt fyrir þessar stofnanir að geta leitað eftir áhættufé úti á markaðnum frá einstaklingum, frá fyrirtækjum og þeim sem eru tilbúnir til að leggja fjármuni í þennan rekstur.

Hv. þm. gerði mikið úr því að þetta mál hefði verið lengi í undirbúningi hjá ríkisstjórn. Það er rétt að undirbúningur þessa máls var hafinn fljótlega eftir að ríkisstjórnin var mynduð. Ástæðan fyrir því hversu seint það kemur fram var einfaldlega sú að við höfum lagt talsvert mikla vinnu í þennan undirbúning. Við höfum leitað ráða hjá mjög mörgum og við höfum líka viljað hafa samráð við mjög marga við framlagningu málsins sem ég tel að við höfum gert.

Ég held ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem fram komu hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni með öðrum þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Þó er þeirri spurningu ósvarað sem snýr að því hvað verður um upplýsingar um launakjör bankastjóra þegar breytt hefur verið í hlutafélag. Þá vil ég vitna fyrsta lagi til 54. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.``

Þannig tel ég að þessi möguleiki sé fyrir hendi. Í lögum um ársreikninga segir í 36. gr.:

,,Í skýringum í ársreikningi eða í skýrslu stjórnar, ef hún er hluti ársreiknings, skal a.m.k. veita upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í 37.--51. gr., auk þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.``

Ég ætla þá að vitna í 48. gr.:

,,Upplýsa skal um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsári. Þá skulu laun og launatengd gjöld sundurliðuð ef það er ekki gert í rekstrarreikningi.

Veita skal upplýsingar um heildarlaun, þóknanir og ágóðahluta til stjórnenda félags vegna starfa í þágu þess.

Greina skal frá samningum, sem gerðir hafa verið við stjórn, framkvæmdastjóra eða starfsmenn um eftirlaun, og tilgreina heildarfjárhæðir.``

Þetta tel ég að eigi allt að liggja fyrri í skýrslum og ársreikningum þegar þeir eru kynntir á hverju einasta ári. (Gripið fram í.) Lög um ársreikninga, nr. 144/1994, þannig að þessar upplýsingar eiga allar að liggja fyrir og það er skylda og þessi regla mun gilda um hlutafélög.

Í reglugerð nr. 544/1994, um gerð ársreiknings viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, þar sem þetta er sérstaklega tilgreint, segir í 42. gr., með leyfi forseta:

,,Í skýringum við rekstrarlið 8.1, laun og launatengd gjöld, skulu koma fram upplýsingar um laun og þóknanir til stjórnar og stjórnenda stofnunar vegna starfa í þágu hennar enda séu þessar upplýsingar ekki í skýrslu stjórnar.`` Samkvæmt þessu eiga þóknanirnar líka að koma fram. Ég tel að þarna séu allir möguleikar til staðar til þess að verða við þeim óskum sem hafa komið fram. Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að hafa þennan aðgang að vita hver þessi kjör eru, og ekki síst á meðan ríkið á 100% í þessu hlutafélagi, fyrir utan það að ef þetta frv. verður samþykkt þá mun viðskrh. velja stjórn viðkomandi stofnunar og stjórn viðkomandi hlutafélags á að gefa viðskrh. upplýsingar um launakjör eins og greint er á um í 79. gr. laga um hlutafélög:

,,Aðalfundur ákveður árlega laun stjórnarmanna og fulltrúa nefndarmanna. Félagsstjórn ákveður laun og starfskjör framkvæmdastjóra.``

Það er því stjórnin sem ákveður þetta. Og þar sem stjórnin er skipuð af viðskrh. í þessu tilfelli þá eiga þessar upplýsingar að vera til staðar ef menn leita eftir þeim. (Gripið fram í.) Ég ætla ekkert mat að leggja á það og hef ekki kynnt mér hvort þessu er öðruvísi farið hjá Pósti og síma. En mér sýnist þetta liggja þannig í lögum sem snúa að viðskiptabönkum og sparisjóðum að það sé opinn aðgangur að þessum upplýsingum.

Áður en ég kem að því að svara þeim spurningum sem koma fram í fyrirspurn sem hér hefur verið lögð fyrir á þskj. 730 þá vil ég víkja að nokkrum spurningum frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hv. þm. spyr hver sé skýringin á mismunandi rekstrarafkomu bankanna, þ.e. mismunandi rekstrarkostnaði. Ég hugsa að skýringin sé fyrst og fremst sú að stærri einingar eru hagkvæmari í rekstri og það er held ég ástæðan fyrir því að rekstrarkostnaður Landsbankans er tiltölulega lægstur. Þetta er stærsti bankinn. (Gripið fram í.) Það kemur fram í fyrirspurninni, ég kem að því örlítið síðar.

Hv. þm. spyr hver sé ábyrgð ríkissjóðs eftir að búið er að breyta í hlutafélög. Það er alveg skýrt í þessu frv. að ríkissjóður ber ábyrgð á öllum þeim skuldbindingum sem til eru orðnar í ríkisviðskiptabönkunum áður en formbreytingin á sér stað en eftir að formbreytingin hefur átt sér stað er ekki gert ráð fyrir því að ríkissjóður beri ábyrgð á þessum skuldbindingum öðrum en eftirlaunaskuldbindingum starfsmanna og bundnum innlánsreikningum á meðan á binditíma stendur. Frv. er alveg skýrt í þessum efnum.

Varðandi starfsmannamálin spurði hv. þm. hver hefði samningsrétt fyrir starfsmenn. Í 12. gr. frv. er kveðið á um það, með leyfi forseta:

,,Um kjarasamninga Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. við starfsmenn skal fara samkvæmt lögum nr. 34/1977, um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins.``

Þessi lög gera ráð fyrir að það sé Samband ísl. bankamanna sem fari með samningsumboðið og það hefur verið þannig kynnt fyrir Sambandi ísl. bankamanna og starfsmannafélögum beggja bankanna. Ég veit ekki betur en að báðir aðilar séu sáttir við þá niðurstöðu.

Hv. þm. talaði um að það kæmi í hlut ráðherra að auka hlutafé í viðskiptabönkunum um 4--5 milljarða kr. Þetta er ekki alls kostar rétt. Ég vil benda hv. þm. á í fyrsta lagi að samanlagt eigið fé beggja bankanna, Landsbankans og Búnaðarbankans var 10,3 milljarðar um síðustu áramót. Ef hv. þm. les 2. mgr. 5. gr. frv. þá er gert ráð fyrir að það verði ekki nema 75% af eigin fé bankanna sem verði breytt yfir í hlutafé. 25% verði annað eigið fé. Hver er þá hæsta mögulega hlutafjáraukning sem viðskrh. hefur heimild til að bjóða út? Þá er ég með báða bankana undir. Það eru 2,7 milljarðar, þ.e. 35% af 7,7. Þannig að það er hæsta möguleg hlutafjáraukning sem getur átt sér stað í báðum bönkunum án þess að breyta lögum, í báðum bönkunum. Þetta er þá alveg skýrt.

Þá kem ég að spurningu hv. þm. Svavars Gestssonar um hvað samþykki Alþingis þýði. Það er von að spurt sé og ágætt dæmi tekið af Sementsverksmiðju ríkisins við afgreiðslu fjárlaga rétt fyrir jól þar sem óskað var eftir því tiltölulega mjög seint að fá heimild til að selja 25% af eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu. Eins og frv. er orðað þá væri hægt að leita eftir, þannig að það liggi fyrir hér líka, slíkri heimild með frv. til fjárlaga. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar þar sem hér er um slík fyrirtæki að ræða eins og bankana að það væri eðlilegast að frv. um þessa breytingu, ákvörðun um þessa sölu, færi fram við þrjár umræður hér á Alþingi. Komi til þess þá mun ég í minni tíð sem viðskrh. beita mér fyrir að það verði gert þannig vegna þess að í greinargerð með frv. er líka ákveðin stefnuyfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar. Næstu fjögur árin verða þessar ríkiseignir ekki seldar og það þarf sérstakt samþykki Alþingis til þess. Því finnst mér eðlilegt að sú ákvörðun fari fram með formlegum hætti og að þingsköpum, með þremur umræðum í þinginu og nefndarstarfi þar á milli.

[15:15]

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvort ég væri sammála flokksbróður mínum Steingrími Hermannssyni um sameiningu banka, þ.e. sameiningu Búnaðarbankans og Landsbankans. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon las upp úr þessari ræðu þáverandi hv. þm. Steingríms Hermannssonar og vægt þótti mér þar til orða tekið um sameininguna, herra forseti, í því sem var haft eftir núverandi seðlabankastjóra. Ég held ég hafi hins vegar svarað því hér fyrr hver afstaða mín er til sameiningar bankanna. Ég tel að hún komi ekki til álita við þær kringumstæður sem núna eru uppi. Hvað framtíðin ber í skauti sér í þeim efnum treysti ég mér ekki til að segja á þessari stundu.

Varðandi þá fyrirspurn sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni og þá fyrstu spurninguna, um hvort farið hafi fram úttekt á áformum um hlutafélaga- og einkavæðingu bankakerfisins þar sem fram kemur mat á áhrifum þeirra breytinga á fjármagnsmarkaðinn og ríkisbúskapinn svo sem á markaðsvexti, erlend lánskjör, fákeppni eða einokunartilhneigingar í bankakerfinu, afnám ríkisábyrgðar, stöðu tryggingarsjóða til að mæta skakkaföllum og öryggi innstæðna, og ef svo er hverjar séu helstu niðurstöður þeirrar úttektar.

Það hefur ekki farið fram heildstæð úttekt í þessum efnum. Hins vegar eru til margar greinargerðir og skýrslur um öll þau efnisatriði sem hér eru tilgreind. Fyrst vil ég nefna þá greinargerð sem nefnd hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar skilaði til viðskrh. og ég sagði frá áðan að ég teldi eðlilegt að yrði til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. Í þeirri skýrslu er tekið á flestum þeim hlutum sem hér er minnst á. Í öðru lagi er greinargerð um samkeppnisstöðu viðskiptabankanna frá því 24. nóv. 1994. Í þriðja lagi er greinargerð Matthíasar Bjarnasonar um frv. til laga um breytingu á ríkisviðskiptabönkunum frá apríl 1995. Í fjórða lagi er skýrsla Ágústs Einarssonar um nauðsynlegan undirbúning að breyttu formi ríkisviðskiptabankanna frá því í nóvember 1992, og veit ég að hv. þm. þekkir þá skýrslu mjög vel. Síðan er greinargerð bankastjórnar Seðlabankans um breytingar á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélag frá því í mars 1991. Sú skýrsla er hins vegar tekin saman áður en við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu þannig að ég held að hún sé að nokkru leyti úrelt. En ég tel að hinar skýrslurnar allar séu mjög þörf og greinargóð gögn inn í þá umræðu sem fer fram í hv. efh.- og viðskn. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Þar sem tími minn er búinn verð ég að fá að taka til máls síðar við umræðuna til þess að svara frekar þeim spurningum sem koma fram á þessu fyrirspurnablaði.