Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:20:54 (4414)

1997-03-13 15:20:54# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:20]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ræða hæstv. ráðherra upplýsti ekki mjög mikið. Það er ljóst að ekki á að dreifa eignaraðild með skýrum hætti í frv. Ég boðaði brtt. okkar jafnaðarmanna varðandi þennan þátt. Þetta er ómöguleg útfærsla og skýrðist ekkert betur hjá ráðherra. Það að fela einkavæðingarnefnd útfærslu á þessum þáttum staðfestir grun okkar um einkavinavæðingarhugsunarháttinn og má þar nefna hvernig tókst til með einkavæðingu SR þar sem hæsta tilboði var ekki tekið af því það var ekki mönnum þóknanlegt.

Það á ekkert að hafa samráð við starfsmenn. Þeir eiga að fá að fylgjast með. Það eru engin samráð hér. Það er ekkert sagt til um bankastjórana, einn, þrír eða fimm eða í bankaráðin fimm eða tíu menn. Það á að vera í samþykktum. Það er útilokað að ganga svona frá frv., að fela mikilvægar ákvarðanir eins og stjórnskipulag í samþykktir þessarar stjórnar þegar hún verður skipuð. Þetta gengur ekki en sýnir fyrst og fremst vandkvæði ráðherra að semja um mönnunina milli stjórnarflokkanna.

Það sem er hins vegar athyglisverðast í svari ráðherra er það hvernig hann tekur á upplýsingaskyldunni vegna þess að hann svarar alveg með réttu, vitnar bæði í stjórnarskrá, lög um ársreikninga og uppgjör og hlutafélög, sem er allt rétt með farið, og sýnir skyldu ráðherra til upplýsingagjafar. Það sem hæstv. viðskrh. segir er að hæstv. samgrh. hafi brotið lög og brotið stjórnarskrá með svari sínu hér á hinu háa Alþingi í gær. Það mál mun vitaskuld hafa eftirköst því það er rétt sem ráðherra sagði að það er ótvírætt skylda bæði í stjórnarskrá, í hlutafjárlögum og reyndar vísað til í ákvæði um ársreikninga um upplýsingar af þessu tagi, auk þess sem hluthafinn hefur möguleika bæði í hlutafjárlögum, 91. gr. t.d., að kalla eftir fundi og upplýsingum sem nauðsynlegar eru. (Forseti hringir.) Hins vegar er einnig ljóst að ráðherrann verður, og ég veit að hann gerir það og stendur við allt sem hann sagði hér áður, að svara til nefndarinnar þeirri miklu úttekt sem þarf að gera varðandi fyrirspurnina margfrægu.