Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:23:21 (4415)

1997-03-13 15:23:21# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:23]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. vil ég taka það skýrt fram að með útskýringum mínum á því hvernig ég horfði á upplýsingaskylduna gagnvart viðskiptabönkunum, var ég ekki að leggja neitt mat á svar samgrh. í þeim efnum, bara svo það sé alveg skýrt. Varðandi dreifðu eignaraðildina tel ég að ekki sé rétt, þannig að það komi skýrt fram af minni hálfu, að lögfesta það í frv. hvernig hún skuli dreifast. Ég tel nægja að skýr yfirlýsing í grg. frv. um þetta efni komi fram og vísa aftur til reglna einkavæðingarnefndar og minni þar hv. þm. á, af því að hann tók dæmi af fyrirtæki sem einkavætt hefði verið, Síldarverksmiður ríkisins eða SR-mjöl, þá var það mál einmitt ekki til umfjöllunar hjá einkavæðingarnefnd. Það mál fór ekki til úrvinnslu hjá einkavæðingarnefnd heldur var það gert með alveg sérstökum hætti og staðfestir það að mikilvægt er að um ríkiseignir, sem eru boðnar til sölu eða ef um er að ræða að auka hlutafé í bönkunum, gildi mjög skýrar reglur --- og reglur einkavæðingarnefndar eru mjög skýrar á þessu sviði --- og það gildi sama regla og sömu reglur frá einu fyrirtæki til annars en það sé ekki hending ein sem ráði því hvernig staðið er að framkvæmdinni.