Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:27:36 (4417)

1997-03-13 15:27:36# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:27]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hélt því fram að vandinn við sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans væri aðallega sá að menn hefðu ekki komið sér saman um það og ekki getað fundið út hvaða útibúum ætti að loka. Þetta tel ég að sé ekki rétt. Ég tel að það liggi fyrir að það væri hægt að loka níu útibúum Landsbankans eða Búnaðarbankans úti á landi, og þeir staðir sem hér er um að ræða eru Grundarfjörður, Skagaströnd, Akureyri, Sauðárkrókur, Akranes, Egilsstaðir, Kirkjubæjarklaustur, Vík og Selfoss, og samt stæðu alls staðar eftir útibú frá öðrum hvorum bankanum. Í öðru lagi væri hægt að loka líka níu útibúum í Reykjavík og loks að sameina aðalstöðvar bankanna en það væri kannski mesti sparnaðurinn. Það er því augljóst mál að það er tiltölulega einfalt að benda á leiðir sem mundu tryggja sparnað í rekstri beggja þessara banka upp á 1.000 millj. kr. Þess vegna var það sem ég orðaði spurningu mína áðan til hæstv. ráðherra þannig: Hvernig getur ráðherrann neitað sér um að gera tillögur um að spara milljarð fyrir þjóðina?