Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:29:00 (4418)

1997-03-13 15:29:00# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:29]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. taldi hér upp útibú á stöðum þar sem mætti sameina eða loka. Fyrst og fremst var þá verið að tala um sameiningu útibúa sem mundi fylgja í kjölfar þess að bankarnir yrðu sameinaðir. Ég tek undir með hv. þm. að það er eitt af því sem vafalaust væri hægt að spara í rekstri bankanna að koma á auknu samstarfi um útibúanetið víða um land.

Þegar Landsbankinn á sínum tíma sóttist eftir aðstoð þingsins til að geta tekið víkjandi lán til þess að geta styrkt eiginfjárstöðu sína 1992 þá voru settar ákveðnar kröfur á bankann í sparnaði. Flestar þær sparnaðarkröfur hafa gengið eftir. Það sem þó hefur farið úr skorðum er að afskriftatöpin eru meiri en menn gerðu ráð fyrir í upphafi en það voru líka settar kröfur á bankann um að leita leiða til þess að hagræða og spara m.a. með því að sameina útibú og draga úr eignarhlut sínum í einstökum fjármálafyrirtækjum. Nú eiga flestir þeir flokkar sem eiga sæti á Alþingi fulltrúa í bankaráði Landsbankans. Þrátt fyrir þessa kröfu þingsins til bankans hafa þessi áform ekki gengið eftir vegna þess að um það hefur staðið pólitísk deila hvernig skuli staðið að þessari framkvæmd. Mér þykir það virðingarvert af hv. þm. Svavari Gestssyni að telja það skýrt hér upp fyrir þjóðina hvaða útibú það eru víða um land sem rétt væri að loka.