Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:32:18 (4420)

1997-03-13 15:32:18# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:32]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það er kannski þetta tvennt m.a. sem gerir það að verkum að vaxtamunur eða vaxtakostnaður er meiri hér á landi en í nálægum löndum, þ.e. annars vegar sá kostnaður sem bankastofnanir verða að leggja í fyrir að búa í dreifbýlu landi til að veita þjónustu. En þar er að vissu leyti hægt að spara og svo hitt að við þurfum stærri stofnanir til að geta þjónað betur. Við erum að opna fyrir þann möguleika í þessu frv. sem hér er til umfjöllunar og umræðu, opna fyrir þann möguleika að þessar stofnanir geti leitað eftir nýju eigin fé á markaði. Það er ekkert sem bannar það, ef um það myndast pólitísk samstaða og samstaða milli bankanna og þeirra stjórnenda sem þar munu fara með völdin þegar þetta frv. er orðið að lögum, að þessar stofnanir sameinist vegna þess að lögin um viðskiptabanka og sparisjóði heimila slíkan samruna ef menn telja það vera heppilegt. Það getur vel verið að framtíðin beri það í skauti sér að bankar muni renna saman hvort sem það verða Landsbankinn og Búnaðarbankinn eða kannski Landsbankinn eða Íslandsbanki, ég ætla ekkert að segja um það. En svo það sé skýrt af minni hálfu teldi ég ekki rétt á þessari stundu af efh.- og viðskn. að fara að leita slíkra leiða vegna þess að ég veit að það er mjög erfitt við þessar kringumstæður að ná slíku fram. Ég tel mikilvægast af öllu fyrir bankana, fyrir starfsfólk bankanna og viðskiptavini bankanna og þá sem þar fara með stjórn að þeirri óvissu sé aflétt, sem hefur verið í tíu ár, um hvort formbreyta eigi þessum stofnunum eða ekki. Með því að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir er óvissunni aflétt.