Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:54:35 (4422)

1997-03-13 15:54:35# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:54]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er örlítill misskilningur hjá hv. þm. varðandi 35% hlutafjáraukninguna. Það stendur skýrt í frv. að samanlagður eignarhlutur annarra en ríkisins getur aldrei farið upp fyrir 35%. Þá er miðað við það hlutafé sem ríkið á því það á 100% í bankanum þegar honum er breytt í hlutafélag. Aðrir aðilar geta samtals ekki farið upp fyrir 35%. Ríkisábyrgðin er alveg skýr í frv. Hún er ekki til staðar eftir að búið er að breyta nema á þeim tveimur þáttum sem ég nefndi áðan. Tryggingarsjóðirnir þurfa að taka við og bera ábyrgð á þeim skakkaföllum sem bankarnir verða hugsanlega fyrir.

Hv. þm. var að lýsa alveg sérstökum aðstæðum á Norðurlöndum. Þar var tekið á út frá þjóðhagslegum hagsmunum og ákveðið að ríkið hlypi undir bagga með þessum fjármálastofnunum, eins og hv. þm. orðaði það, til að fjármálakerfið í landinu hryndi ekki. Ég ætla ekki að útiloka að það mundi gerast hér ef slíkar aðstæður kæmu upp. En ábyrgðin er ekki til staðar.

Varðandi það að starfsmennirnir njóti sérkjara. Það verður sérstaklega kannað og kemur fram í frv. stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Varðandi hin pólitísku afskipti, þá held ég að hv. þm. hafi misskilið mín orð áðan þegar ég var að lýsa því að ég teldi að það þyrfti að fara varlega í að breyta þessu vegna þess að hér væru róttækar breytingar að eiga sér stað. Bankaráðin eru skipuð þannig í dag að þau endurspegla hið pólitíska landslag að nokkru leyti. Viðskrh. er pólitískur hverju sinni og meðan viðskrh. fer með þetta, þá verður alltaf sagt að þar sé um pólitísk afskipti að ræða. Hinum pólitísku afskiptum af bankastarfsemi í landinu lýkur ekki fyrr en ríkið er algerlega farið út úr þessu. Ég held að ég og hv. þm. getum orðið sammála um þetta. Það sem ég var einfaldlega að reyna að segja er að ég tel að menn eigi ekki að gera róttækar breytingar á því formi sem verið hefur í gangi, hvernig menn hafa komið sér saman um að bankaráð væru skipuð. Aðalatriðið er að í bankaráðin veljist hæfir og færir einstaklingar sem hafa og geta staðið undir ábyrgð og þeim skyldum sem lögin kveða á um að þeir eigi að geta staðið undir.