Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:57:07 (4423)

1997-03-13 15:57:07# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skal einfalda spurningu mína varðandi öryggi innstæðna í bönkum. Það er alveg skýrt hverju ráðherrann hefur svarað. Ríkið er ábyrgt fyrir innstæðunum sem eru fyrir. Hvað tekur við á eftir? Það er tryggingarsjóðurinn. Þá spyr ég ráðherrann beint: Telur hann að tryggingarsjóðurinn sé í stakk búinn og sé megnugur þess að tryggja öryggi innstæðna sparifjáreigenda? Að sparifjáreigendur geti verið tryggir ef bankarnir verða fyrir einhverjum skakkaföllum fái þeir innstæður sínar að fullu bættar?

Í annan stað vil ég spyrja ráðherrann. Er ráðherrann tilbúinn til þess að lýsa því yfir, sem ég held að mundi greiða mjög fyrir málinu, að tryggja starfsmönnum beina aðild að þessari þriggja manna framkvæmdarnefnd? Ráðherrann talar um að starfsmennirnir fái að fylgjast með, en ég spyr: Er ráðherrann reiðubúinn til að lýsa yfir að starfsmennirnir fái beina aðild að framkvæmdinni? Það mundi greiða mjög fyrir málinu ef ráðherrann væri tilbúinn að lýsa því yfir.