Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 15:58:27 (4424)

1997-03-13 15:58:27# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[15:58]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi spurninguna um getu tryggingarsjóðanna til að taka á sig þær ábyrgðir sem þarna gætu hugsanlega legið að baki, þá er það mitt mat. Við höfum á undanförnum tveimur þingum gert verulegar breytingar einmitt á tryggingarsjóðum. Hér var frv. á síðasta þingi þar sem menn voru að gera breytingar á Tryggingarsjóði viðskiptabankanna. Ég er þeirrar skoðunar að tryggingarsjóðirnir standi undir tryggingum fyrir innstæðueigendur í bönkunum.

Þær aðstæður geta auðvitað skapast að eitt allsherjarhrun, og það er það sem hv. þm. var að vitna til, sem gerðist á Norðurlöndunum. Þar varð hrun í bankakerfinu og við þær kringumstæður stóðu tryggingarsjóðirnir ekki undir tryggingum og þess vegna hljóp ríkið þar undir bagga, til þess að tryggja að fjármálakerfi viðkomandi þjóða hryndi ekki. En tryggingarsjóðirnir hjá okkur tryggja innstæðueigendur. Það er alveg ljóst og við erum með þær reglur. Ég ætla ekkert að spá fyrir hvernig færi hjá okkur frekar en öðrum ef um allsherjarhrun væri að ræða. Við megum ekki rugla þessu saman. Annars vegar tryggingu til að standa undir ef illa fer og svo hins vegar tryggingu til að standa undir ef eitthvert allsherjarhrun gengi yfir.

Varðandi aðgang starfsmanna að þeirri nefnd sem um er getið í 2. gr. frv., þá svara ég því eins og ég svaraði því áðan og ég hef svarað starfsmönnunum þessari sömu spurningu. Ég er ekki tilbúinn til þess að segja hér og nú að starfsmennirnir verði með mann í þessari nefnd. En ég hef sagt: Starfsmennirnir munu eiga gott samstarf við nefndina, munu fá að vinna með nefndinni.