Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:23:02 (4427)

1997-03-13 16:23:02# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að mér finnst hv. þm. bregðast drengilega við og alveg sérstaklega drengilega, að hann skuli koma félögum sínum í Alþfl. til aðstoðar og hjálpar hér, berandi til þess í raun og veru engar skyldur. Því að mér er fullljóst að Þjóðvaki hefur aldrei komist til þeirra metorða að eignast bankastjóra sem slíkur. Það er alveg ljóst.

Hins vegar er það sögulega óhrekjandi staðreynd að Alþfl. hefur á köflum sloppið alveg inn í þetta samtryggingabandalag sem hefur þá breyst úr helmingaskiptabandalagi yfir í þriðjungaskiptabandalag. Á köflum hafa þriðjungaskiptin verið alveg augljós og borðleggjandi. Og gæti ekki hugsast t.d. að það væri aðalskýringin á hinni heilögu tölu, þremur, þremur bankastjórum og þremur sem ganga mjög víða aftur í kerfinu, að þeir buðu upp á valdabandalag þessara flokka um marga hluti á löngum tímabilum þessarar aldar.

En það má enginn misskilja mig svo. Það var í sjálfu sér kannski ógætilega mælt að ég væri að væna Alþfl. eða þess vegna þingflokk jafnaðarmanna um að vera með einhverja samninga við stjórnarliðið beinlínis um þetta frv. (Gripið fram í.) Ég sé að ýmsum fellur illa þessi umræða og flýja nú á dyr eins og ritstjóri Alþýðublaðsins, má hann ekki við bindast þessa umræðu.

Hitt er alveg rétt sem hér hefur komið fram og það er eðlilegt að menn fari hér í ákveðna sögulega upprifjun í tengslum við þetta mál. Því miður er ekki hægt að neita því að grunsemdir vakna af ýmsu tagi um að það leynist maðkur í mysunni, ýmislegt fleira sé þarna á ferðinni heldur en látið er uppi á yfirborðinu og að þeir tímar að flokkarnir ætli alveg að sleppa af þessu hendinni gangi ekki í garð bara með gildistöku þessara laga. Kannski er það þá þannig að Alþfl. sé endanlega að losna út úr þessu og það er vel ef svo er.