Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:42:46 (4429)

1997-03-13 16:42:46# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:42]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hér hafa komið fram örfáar fyrirspurnir. Fyrst varðandi þá fyrirspurn á þskj. 730 sem hérna liggur fyrir og ekki gafst tími til þess að svara áðan. Ég hef rætt við flm. fyrirspurnarinnar og mér finnst eðlilegt að af hálfu ráðuneytisins verði undirbúin svör og þau send til efh.- og viðskn. á grundvelli þeirrar fyrirspurnar sem hérna liggur fyrir þannig að í nefndinni hafi menn þá á hreinu svör ráðuneytisins gagnvart einstökum hlutum þar eins og þeir eru settir hér fram til að það verði hægt að gera með tiltölulega skömmum fyrirvara og það verði þá skýrt gagnvart nefndinni hvað þar er um að ræða.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði um afstöðu mína til ráðningar á þeim síðasta bankastjóra sem ráðinn var við Landsbankann til fimm ára. Fyrir lá tillaga frá hluta af bankaráði bankans um að hann yrði ráðinn til fimm ára með sex mánaða uppsagnarfresti. Það er nú svo að ráðnir hafa verið þrír bankastjórar við viðskiptabankana, bæði Búnaðarbanka og Landsbanka á undanförnu einu og hálfu ári. Þeir hafa allir, þrátt fyrir að hlutafjárvæðing bankanna stæði fyrir dyrum, verið ráðnir til fimm ára án nokkurs uppsagnarfrests. Fimm ára ráðningin skapar ekki viðkomandi bankastjórum ráðningu til fimm ára óháð því hversu lengi viðkomandi stofnun er starfandi. Ég held að engin deila sé um það. Þegar kemur að því að ráða þarf bankastjóra í hlutafélagabankana --- þeir bankastjórar sem fyrir eru koma auðvitað til greina í þeim efnum en það verður stjórn viðkomandi hlutafélags sem tekur ákvörðunina --- þá er ljóst að þó svo að einhver þeirra verði ekki ráðinn þá heldur hann ekki launum við gamla bankann í fimm ár. Ég held að það sé engin lagaleg deila um slíkt.

Hv. þm. spurði hver mín framtíðarsýn á þessum fjármagnsmarkaði væri. Ég held að íslenskur fjármagnsmarkaður muni þróast mjög líkt og fjármagnsmarkaður í löndunum í kringum okkur og ég held að við eigum einmitt að gefa honum tækifæri til að þróast þannig. Hver er þróunin? Jú, hún er sú og það er að mörgu leyti í samræmi við það sem hv. þingmenn Alþb. hafa verið að tala um að ætti að byrja á að gera, þ.e. að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka og sjá síðan til. Þróunin á fjármagnsmarkaði í löndunum í kringum okkur er sú að hinar ýmsu fjármálastofnanir eru að renna saman. Það eru ekki endilega bankar sem renna saman heldur eru bankar, verðbréfasjóðir, bankar og fjárfestingarlánasjóðir, bankar og tryggingafélög í stórum stíl að renna saman, stofnanir sem veita fjármálalega þjónustu. Þetta er allt gert í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárstöðu þessara stofnana til þess að geta frekar veitt ódýra og betri þjónustu á þessum markaði.

Ég hef sagt og segi enn að ég tel það ekki rétta leið við þessar kringumstæður sem hér eru uppi að byrja á því að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka. Ég teldi það vera ranga leið. Fyrst tel ég að það eigi að byrja á því að formbreyta bönkunum, skapa öllum þeim viðskiptabönkunum sem eru á íslenskum fjármagnsmarkaði og fjármálamarkaði sömu samkeppnisaðstæður. Aðstæðurnar eru mismunandi nú. Við skulum síðan sjá til hver þróunin verður.

Það er ekkert í núgildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem hamlar því að þessi þróun sem ég er hér að lýsa um aukinn samruna, styrkari stofnanir, sterkari stofnanir til að taka þátt í samkeppninni geri það að verkum eða komi í veg fyrir að slík þróun geti átt sér stað.