Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:48:28 (4431)

1997-03-13 16:48:28# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:48]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þm. á við þegar hann segir að það sé ekki verið að skapa sömu samkeppnisaðstæður milli bankanna með formbreytingunni. Staðreyndin er sú og þær skýrslur liggja fyrir hér við skoðun málsins þegar það kemur til efh.- og viðskn. og úttekt Seðlabankans á því, að það eru mismunandi samkeppnisaðstæður eftir því hvort bankarnir eru í ríkiseigu og eru ekki hlutafélög eða eru í einkaeigu og eru hlutafélög. Við erum með þessari breytingu m.a. að stefna að því að jafna þessar samkeppnisaðstæður þannig að þær séu þannig að það halli á hvorugan, að formið sé slíkt að allar stofnanirnar búi við sambærilegar aðstæður hvað þetta snertir. En um leið erum við líka með þessu að tryggja það að viðkomandi ríkisbankar sem núna starfa, eftir að búið er að breyta þeim í hlutafélög, hafi tök á því að ná inn nýju fé, áhættufé inn í bankana í gegnum aukningu á hlutafé til þess að vera sterkari og betur í stakk búnir í þessari samkeppni.